154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[20:09]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna sem er mikilvæg. Ég vil líka minna á það að við Íslendingar byggjum ekki bara okkar sérstöðu í umhverfismálum og loftslagsmálum á því að þeir sem á undan komu höfðu dug í sér og þrek og þor til að nýta græna orku, taka út fyrst kol og gas og síðan olíu. Við getum þakkað þessum kynslóðum mjög mikið og við þurfum að standa undir væntingum og halda þeirri vegferð áfram. Það liggur alveg fyrir miðað við það magn sem við þurfum að við þurfum að leita annarra leiða heldur en bara þeirra sem við höfum notað fram til þessa, þó að auðvitað þurfum við að fara í skynsamlega nýtingu þar. Og ég tek undir það, og það kemur fram í þessu frumvarpi og í þingsályktunartillögunni sem ég mun mæla fyrir hér á eftir, að menn hafa svo sannarlega verið að líta til þeirra þátta af jafnvægi, til náttúruverndar og grænnar orkuöflunar.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, af því ég hef nú farið í andsvör við alla nema við þennan hv. þingmann, nefndi svolítið áhugaverðan hlut í sinni ræðu þegar hún talaði um að henni fyndist vindorkan falleg. Nú hafa menn allar skoðanir á því en það er áhugavert að skoða skoðanakannanir og hvernig ferðamenn sem hingað koma líta á vindorkuna. Þeir eru á nákvæmlega sama stað og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, þeir líta á það sem merki um að viðkomandi þjóð sé að nýta græna orku. Eins er rétt að segja, af því að hv. þingmaður vísaði í sjávarföllin, að það er ekki langt í það að virðulegur forseti og hv. þm. Ásmundur Friðriksson muni skila af sér skýrslu en hann vinnur ásamt fleirum að því að skoða aðra orkukosti og kemur með skýrslu í kjölfarið af því.

Ég gleymdi því líka áðan í orðaskiptum mínum við hv. þm. Gísla Rafn Ólafsson að það er verið að kynna bara á morgun skýrslu sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var með út af Langanesi og grænorkumálunum og þjóðgarðamálunum þar. Það er því mjög margt í gangi og við erum með mörg járn í eldinum vegna þess að við þurfum að hafa mörg járn í eldinum og það eru til margs að líta og okkur liggur á. Vandinn hins vegar er sá og menn geta ekkert neitað að horfast í augu við þær staðreyndir að allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru að einfalda regluverk og fara í mikla græna orkuframleiðslu til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er bara staðreynd og hver sá sem hefur aðgang að internetinu getur kannað það og séð það. Það er svo einfalt og ég hvet hv. þingmenn til að skoða það. Reyndar er það þannig í vindorkuskýrslunni sem hópurinn gaf út að þar er farið yfir reynslu annarra landa. Þar er m.a., ef ég man rétt, og ef það er ekki þar þá er hægt að kalla eftir því, hægt að sjá hverjar fyrirætlanir annarra landa eru sem við berum okkur saman við. Þá er ég að tala um Norðurlöndin, ég er að tala um Skotland og Nýja-Sjáland, sem er kannski ekki nágrannaland okkar og eiginlega langt í frá. Þau eru tekin sérstaklega fyrir, bæði reynsla þeirra og fyrirætlanir, vegna þess að málefnið þolir enga bið. Þessi hópur sem vann þessa vinnu lagði gríðarlega mikið á sig til að ná sem flestum sjónarmiðum fram, ná eins góðri sátt og mögulegt er, bæði voru skoðuð önnur lönd en ekki síður var samtal við fjölda aðila hér innan lands, opnir fundir. Allt er það gott veganesti fyrir þennan sama hóp sem er núna að endurskoða rammann vegna þess að menn vildu vanda sig og horfa til þeirra sjónarmiða sem hafa m.a. komið fram í umræðunni. En síðan liggur það alveg fyrir, virðulegi forseti, að okkur liggur á.