131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:18]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni félagsmálanefndar, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir markviss og góð vinnubrögð við þetta frumvarp.

Félagsmálanefnd hefur tekið umrætt frumvarp til umsagnar. Samstaða varð um frumvarpið með þeim breytingum sem hv. formaður félagsmálanefndar hefur kynnt. Það er nauðsynlegt að færa kosninguna um sameiningu til 8. október vegna þess að mörg sveitarfélög höfðu óskað eftir fresti til að fara í kosningar um sameiningarmál þar til tekjustofnanefnd lyki störfum. Hins vegar er ekki nægur tími til stefnu til að tillögur sameiningarnefndar geti hlotið nægilega kynningu og umfjöllun í viðkomandi sveitarfélögum fyrir kjördag. Einnig er undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögu sameiningarnefndar kominn misjafnlega vel á veg.

Það kom fljótlega í ljós í sameiningarumræðunni hjá sveitarstjórnarmönnum að þeir lögðu alla áherslu á að vita hvað væri í pakkanum frá tekjustofnanefnd áður en sameiningarnefnd skilaði af sér. Þetta var almenn ósk. Umræða um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga fór minnkandi eftir því sem á leið. Tekjustofnanefnd hefur lokið störfum og skilað af sér. Ég fagna því sérstaklega. Samkomulagið er um rúmlega 9 milljarða kr. á næstu þremur árum, annars vegar með beinu framlagi ríkissjóðs og hins vegar teljast ýmsar hliðranir fyrir sveitarfélögin ígildi peninga.

Það sem ég hef gagnrýnt varðandi tillögur tekjustofnanefndar tengist því er við skoðum framtíðartekjur sveitarfélaga. Samkvæmt tillögum tekjustofnanefndar, þ.e. eftir árið 2008, kemur inn álagning fasteignaskatta á ríkisstofnanir. Varanleg tekjuaukning eftir árið 2008 fyrir sveitarfélögin eru rúmar 1.500 millj. kr. Þar af eru 600 milljónir, eða 20%, lagðar á ríkisstofnanir í formi fasteignaskatta sem ekki voru greiddir áður. Reykjavíkurborg fær rúmar 300 millj. kr. af þessum 600 millj. kr. Hafnarfjörður og Kópavogur tæpar 60 millj. kr., þannig að landsbyggðin fær 250 millj. kr. af 600. Af þeim 240 milljónum fær Akureyrarbær 45 millj. kr. Þá standa eftir 195 milljónir til annarra sveitarfélaga.

Fjárhagsvandi sveitarfélaga er ekki á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgar íbúum og þar með skattgreiðendum á kostnað landsbyggðarinnar. Með fækkun íbúa á landsbyggðinni fækkar skattgreiðendum, en þeir þurfa samt sem áður að sinna lögbundinni þjónustu.

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að í höfuðborg landsins sé töluvert af ríkisstofnunum, þótt hluti þeirra gæti að mínu mati verið annars staðar á landinu með ákveðna starfsemi. Höfuðborgin nýtir einnig skatta flestra þessara starfsmanna ríkisins. Ég hefði viljað sjá ígildi álagðra fasteignaskatta á ríkisstofnanir, þ.e. 600 milljónir, fara sem jöfnun til landsbyggðar í stað þess að rúm 60% þeirra endi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég fjallaði um mál þetta í sal Alþingis á fimmtudaginn var og í þeim töluðu orðum tilkynnti Reykjavíkurborg að hún ætlaði sér að taka upp gjaldfrjálsan leikskóla. Það er ljóst að fyrst borgin hefur efni á því þá þarf hún ekki á viðbótartekjum að halda þegar rætt er um fjárhagsvanda sveitarfélaga. Dæmið lítur þannig út fyrir mér að niðurgreiðsla Reykjavíkurborgar til að gera leikskóla gjaldfrjálsa komi m.a. til vegna tekjuaukningar á fasteignasköttum af ríkisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Þetta er aðalástæða gagnrýni minnar. Það er ekki félagsmálanefndar að breyta þessu enda hefur hún ekki heimild til þess. Það er eðlilegast að taka þetta mál upp á vegum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í samráði fulltrúa í tekjustofnanefnd og ég vona að það verði gert.

Ég vil einnig geta þess að samkomulag tekjustofnanefndar segir ekki löggjafanum hvernig þessum fjármunum skuli varið.

Ég styð frumvarpið heilshugar, hæstv. forseti, en sé ástæðu til að gera grein fyrir óánægju minni með einn lið í tillögu tekjustofnanefndar. Ég er tiltölulega sáttur við annað sem þar kemur fram.