136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er sérlega skemmtilegt að fyrrv. forseti og þingmaður úr kjördæmi Norðvesturs, hv. þm. Sturla Böðvarsson, skuli spyrja um þetta. Í kosningabaráttunni var hann einn af þeim fáu sem var á móti því að afnema Hvalfjarðargangagjaldið. Hann hefur barist ötullega gegn því. Hann hefur talið það vera leysanlegt með öðrum leiðum og viljað halda gjaldtöku á vegum um landið sem víðast. Ég fór í kosningabaráttu þar sem ég tel að þetta gjald sé löngu orðið úrelt og barðist gegn áframhaldandi gjaldtöku, eins og hv. þingmaður vakti réttilega athygli á. Ekki náðist samstaða um það í stjórnarsáttmála og komst þetta mál ekki þar inn sem forgangsmál. Gerð var tilraun til að ná samstöðu allra norðvesturþingmanna um að flytja um þetta þingmál og ég bið hv. þm. Sturlu Böðvarsson að upplýsa um hverjir vildu ekki skrifa undir það. Síðan var rætt um að reyna að koma því inn í endurskoðaða samgönguáætlun og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að áætlunin verði endurskoðuð sem og gjaldtaka á vegum almennt. Þetta er mál sem skiptir mjög miklu máli. Ég tel vera brýnt að þessi gjaldtaka verði tekin núna út svo lengi sem ekki eru lögð almenn gjöld á nýframkvæmdir í vegakerfinu.

Að við höfum sett upp skilti sem á stóð „sturlaðar samgöngur“ er alrangt, það var aldrei gert. Aftur á móti var búinn til miði þar sem á stóð „sturlaðar samgöngur“ og vísað þar til að við höfum búið við mjög erfitt ástand í samgöngumálum. Þetta var léttur orðaleikur en ástæðulaust er að taka því með þeim hætti sem hv. þingmaður virðist hafa gert.

Það er enn þá brýnt að ákveða gjaldtökur á vegum og fyrst þær eru ekki á öðrum vegarspottum á Íslandi á að afnema Hvalfjarðargangagjaldið. (Gripið fram í.)