136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara náið út í einstök efnisatriði. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að sú tillaga sem er í því frumvarpi sem hér er til umræðu er ekki sú tillaga sem sátt varð um og málamiðlun var gerð um í stjórnarskrárnefnd á síðasta kjörtímabili. Þetta er ekki sú leið. Það var málamiðlun innan nefndarinnar um ákveðna lausn og málamiðlunin var undir því komin að þeir efnisþættir sem þar voru inni væru allir til staðar. Þess vegna er ekki hægt að vísa til þess að umfjöllun á því stigi hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem kemur fram í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra.

Í lokin vil ég aðeins árétta það sem hv. þm. Geir H. Haarde benti á áðan. Ég verð að segja það varðandi kostnað við stjórnlagaþing, sem er áhugavert mál, að mér finnst með ólíkindum að forsætisráðherra og fjármálaráðherra í núverandi ríkisstjórn leggi fram frumvarp af þessu tagi án þess að hafa hugmynd um hvað það kostar.