139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. og XII. viðauka við EES-samninginn.

581. mál
[16:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu með þessari merkilegu þingsályktunartillögu.

Það vekur athygli mína, og ég verð bara að upplýsa að ég er ekki algerlega öruggur á því hvað felst nákvæmlega í þessari tilskipun en ég vænti þess að í meðförum hv. utanríkismálanefndar muni það mál skýrast, að í greinargerð með tillögunni er m.a. verið að fjalla um þann þátt sem lýtur að fjárhagslegum tryggingarráðstöfunum og slíkum hlutum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tilskipuninni er einnig ætlað að greiða fyrir framkvæmd sameiginlegrar peningamálastefnu innan ramma efnahags- og myntbandalagsins með því að stuðla að skilvirkni í starfsemi evrópska seðlabankakerfisins yfir landamæri og auknum sveigjanleika í lausafjárstýringu á peningamarkaði.“

Mér liggur forvitni á að vita hjá hæstv. utanríkisráðherra hvort í þessu felist einhver stefnumótandi yfirlýsing í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar til lengri tíma, hvort honum sé kunnugt um það. Og hvort hann hafi rætt þetta mál í ríkisstjórn, t.d. við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, til að fá nánari skýringar á þessu ákvæði.