139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923.

Deilur hér á landi um vatn, vatnsnot og vatnsréttindi ekki nýjar af nálinni og spanna nú a.m.k. heila öld, en eins og kunnugt er urðu talsverð átök í aðdraganda setningu vatnalaga árið 1923 og síðan aftur, eins og margir þekkja, á Alþingi í aðdraganda setningu vatnalaga, nr. 20/2006.

Ágreiningur hefur verið um hvað skuli leggja til grundvallar í umræðunni. Flutningsmenn frumvarpsins sem varð að lögum nr. 20/2006, sem hafa þó ekki tekið gildi enn þá, héldu því fram að þróun síðustu áratuga hafi í sívaxandi mæli styrkt einkaréttarleg sjónarmið. Andstæðingar frumvarpsins sögðu á hinn bóginn að afstaða til vatnsréttinda væri að breytast í þá átt að draga úr slíkum áherslum en þess í stað að styrkja almannarétt og að litið væri á vatn sem mannréttindi sem væri sameign.

Vatnið er ein af undirstöðum lífs á jörðinni. Um það er ekki deilt. Áratugurinn 2005–2015 var alþjóðlegur áratugur aðgerða í vatnsmálum á vegum Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni Vatn fyrir lífið. Á alheimsvísu fer þörfin fyrir vatn vaxandi og víða er skorts farið að gæta enda er vatn ekki ótakmörkuð auðlind. Ísland er auðugt af vatni, bæði magni og gæðum. Ábyrgð þeirra sem landið byggja er mikil, að fara vel með auðlindina og umgangast hana af virðingu þannig að svo verði áfram. Sjálfbær nýting vatns með almannahagsmuni að leiðarljósi er markmið allra lagasetningar sem tengist vatni.

Með lögum nr. 79/2010 var gildistöku vatnalaganna frá 2006 frestað til 1. október á þessu ári. Í greinargerð með því frumvarpi kemur fram að kynnt hafi verið drög að nýjum vatnalögum fyrir iðnaðarnefnd. Var það gert á síðasta ári og voru frumvarpsdrögin byggð á frumvarpi sem vinnuhópur vann út frá niðurstöðum þverpólitískrar nefndar, ásamt minnisblaði um þau skilgreindu atriði sem þarfnast frekari skoðunar og vinnslu áður en hægt er að leggja frumvarpið fram á Alþingi.

Til að ljúka þeirri vinnu var leitað til hæstaréttarlögmannanna Karls Axelssonar og Ástráðs Haraldssonar og Dýrleifar Kristjánsdóttur lögmanns. Unnu þau í samræmi við lögfræðinga ráðuneytisins frumvarp það sem hér er lagt fram.

Með frumvarpi því sem ég mæli fyrir er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur á vatnalögunum frá 1923, þar með taldar grundvallarbreytingar á ákveðnum köflum. Með frumvarpinu er lagt til að vatnalögin frá árinu 2006 taki ekki gildi og falli brott. Meginskipan vatnalaganna frá 1923 hefur reynst afar vel og því margt sem styður það að byggja áfram á þeirri samfélagslegu sátt sem ríkt hefur um skipan vatnsréttinda samkvæmt þeim lögum. Um þá skipan ætti að geta orðið áframhaldandi sátt. Þó svo að vandað hafi verið til vatnalaganna frá 1923 og þau elst vel er óumdeilanlegt að frá gildistöku þeirra hafa orðið gríðarlegar samfélagslegar breytingar og lögin um margt sniðin að því að leysa önnur vandamál en þau álitaefni sem efst eru á baugi nú á dögum. Jafnframt hefur almenn stjórnsýsla tekið grundvallarbreytingum á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna. Á því var lögunum frá 2006 einmitt ætlað að taka og þess vegna tel ég að sú leið sem hér er farin ætti að geta brúað bil beggja og mætt þeim sjónarmiðum sem þá voru uppi.

Ég ætla að fara yfir helstu þætti og breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér. Helstu efnisatriðin eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er í fyrstu 5 af 18 köflum vatnalaganna frá 1923 fjallað um inntak vatnsréttinda og helstu meginreglur réttarsviðsins. Með frumvarpi þessu er lagt til að þau ákvæði vatnalaga haldist óbreytt í öllum aðalatriðum að frátöldum minni háttar lagfæringum, einföldun og sameiningu ákvæða. Réttur landeigenda til yfirborðsvatns er því áfram skilgreindur með jákvæðum hætti eins og verið hefur þannig að landareign fylgi réttur umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er á þann hátt sem lögin heimila. Er það frábrugðið því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í vatnalögunum frá 2006 þar sem réttur landeiganda til vatnsréttinda er skilgreindur með neikvæðum hætti. Það þýðir að þá er talið upp hvað ekki má gera, annars má nýta vatnið með hvaða hætti sem er.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að ákvæði vatnalaga frá 1923 í köflum 6–18, sem lúta að vatnsmiðlun, vörnum lands gegn ágangi vatna, þurrkun lands, vatnsvirkjum, óhreinkun vatna, vatnafélögum, umferðarrétti, bótaákvörðunum, málsmeðferð og refsingu, verði einfölduð og stytt talsvert.

Bætt er við skilgreiningum á hugtökum í upphafi laganna og gildisákvæðum og öllum greinum gefin fyrirsögn. Á einstaka stað er lagt til að felld verði brott ákvæði sem þykja sannarlega úrelt. Má þar nefna sem dæmi ákvæði vatnalaga um ístökur. Einnig má nefna að lagt er til að numið sé úr gildi sérákvæði um vatnsveitur til námavinnslu, viðarfleytingar og fráveitur, enda gilda nú sérstök lög um það síðastnefnda. Eru lögin því í heild sinni færð til nútímahorfs í lagalegu tilliti innan þeirra marka sem unnt er og æskilegt.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að vísan til hlutverks dómkvaddra matsmanna í einstökum efnisgreinum vatnalaga verði felld brott og látið nægja að byggja á því sem sjálfsagt er, að almennar reglur gildi hér eins og endranær. Þá eru í frumvarpinu öll ákvæði vatnalaga um eignarnám og eignarnámsframkvæmd færð til nútímahorfs. Það á að styrkja þann skýrleika í allri framkvæmd sem og réttaröryggi.

Í fimmta lagi: Veigamesta breyting frumvarpsins sú að lagt er til nýtt fyrirkomulag stjórnsýslu vatnamála sem kemur að öllu leyti í stað núgildandi fyrirkomulags vatnalaga 1923. Þar er veigamestu breytingarnar að finna, enda var það niðurstaða hinnar þverpólitísku nefndar sem um málið fjallaði að það þyrfti að gera.

Með frumvarpinu er lagt til að yfirstjórn mála samkvæmt vatnalögum skiptist með tilteknum hætti milli tveggja ráðherra, þ.e. iðnaðar- og umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar og annist framkvæmd tiltekinna greina frumvarpsins, en að öðru leyti lúti lögin yfirstjórn iðnaðarráðherra. Með því móti er þess freistað að samræma sem best stjórnsýslu vatnamála þó að lagaákvæði þar að lútandi verði eftir sem áður í a.m.k. tvennum lögum, samanber frumvarp umhverfisráðherra um stjórn vatnamála, auk ákvæða úr mengunarlöggjöf og víðar.

Samkvæmt frumvarpinu fer Orkustofnun með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum að svo miklu leyti sem þau mæla ekki fyrir um annað og skal stofnunin vera iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra til ráðgjafar um vatnsnýtingu og vatnamál.

Lagt er til að skylt verði að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum. Sem dæmi um slíka framkvæmd má nefna malarnám í vatni.

Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem talin er nauðsynleg af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt fyrir nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á nýtingu vatnsins síðar. Skulu þau skilyrði sem Orkustofnun er heimilt að setja vera í samræmi við vatnastjórnunaráætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um eftirlit Orkustofnunar með því að farið sé að lögunum og úrræði stofnunarinnar ef brotið er gegn þeim. Orkustofnun hefur það hlutverk að fylgjast með öllum framkvæmdum tengdum vötnum.

Áðurnefnd tilkynningarskylda, sem er ný, þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að gera stofnuninni kleift að hafa viðunandi yfirsýn yfir nýtingu vatnsauðlindarinnar og geta lagt mat á fyrirhugaða nýtingu og jafnframt gert skilmála fyrir nýtingunni.

Eins og komið hefur fram er hér farin sú leið, eftir alla þá vinnu sem lagt hefur verið í og eftir víðtækt samráð, að byggja á vatnalögunum áfram frá 1923, sérstaklega hvað varðar vatnsréttindin. Eins og fram kemur er það óbreytt, enda kom það fram í umræðum á þingi á sínum tíma að menn töldu að sú leið hefði verið farsæl og reynst vel og að ekki þyrfti að eiga við hana, en menn töldu rétt og vildu taka upp neikvæða skilgreiningu á inntaki vatnsréttinda til þess að mæta einhvers konar nútímalegum sjónarmiðum eins og haldið var fram á þeim tíma. Ég tel því að miðað við þær tillögur sem hin þverpólitíska nefnd skilaði af sér sé þetta algjörlega og fyllilega í samræmi við þær niðurstöður.

Lagt er til að áfram verði byggt á vatnalögunum frá 1923, þó með miklum breytingum, eins og ég hef greint frá, í hvorki meira né minna en 89 greinum þannig að vatnalögin frá 1923 eiga að geta staðist tímans tönn með þessari uppfærslu.

Það er sannarlega ekki venjuleg tilhögun við lagasmíð að aðlaga næstum 90 ára gamla löggjöf að nútímanum, en í þessu tilviki þykir það hins vegar farsælasta leiðin og til þess fallin að viðhalda sátt um málaflokkinn. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að við eyðum óvissunni sem verið hefur um vatnsréttindin vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið í þinginu og vegna frestana á annarri löggjöf.

Í því samhengi má geta þess að einnig er unnið að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem lögum nr. 57/1998, með það fyrir augum að samræma réttarreglur á því sviði í þeim anda sem lagt er til í frumvarpinu.

Að lokum vek ég athygli á að í fylgiskjali með frumvarpinu hafa verið tekin saman ákvæði núgildandi vatnalaga með öllum þeim síðari breytingum sem á þeim hafa orðið og ákvæðum frumvarps þessa og fært þannig til glöggvunar heildarmynd af því hvernig vatnalögin muni líta út, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta þess áður en ég lýk máli mínu að áður en málið kom inn í þingið sendum við bréf til allra þingflokka í þinginu og buðum þeim heimsókn frá þeim lögmönnum sem unnið hafa að þessu máli. Það boð stendur enn þannig að við getum reynt að vinna þetta yfirvegað og vandlega í þinginu og skapa frið um þennan mikilvæga málaflokk þannig að löggjöfin geti staðið áfram og til lengri framtíðar.

Að því sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.