139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa þessa ræðu í styttri kantinum eins og aðrir ræðumenn vegna þess að þetta er vitanlega 1. umr., málið fer svo til nefndar. Ég vil þó nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og að leggja málið fram. Ég ætla ekki að fara í söguskýringar eins og margir aðrir hér. Ég held að sagan sé til á prenti eða á netinu. Ég vil hins vegar segja að það er mjög mikilvægt að í þeirri umfjöllun sem eftir er verði farið mjög vandlega yfir inntak laganna. Málin verði þar af leiðandi skoðuð út frá því hvort orðalagsbreytingar sem gerðar eru til að færa lögin nær nútímanum og annað hafi í sér nokkra aðra merkingu en þar er sagt og slíkt. Við þekkjum þetta ferli allt saman.

Það er líka mikilvægt að fram komi, eins og hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan, að eignarréttur sem landeigendur, bændur, sveitarfélög og aðrir kunna að eiga sé virtur eða standi óbreyttur. Eins er að sjálfsögðu mikilvægt að réttur almennings til að njóta þessarar auðlindar sem vatnið að sjálfsögðu er sé skýr þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um það.

Það er alveg ljóst, frú forseti, að á næstu missirum og árum mun vatn verða dýrmætara en nokkru sinni líkt og matvæli munu verða dýrmætari en nokkru sinni. Þar af leiðandi er mikilvægt að sú löggjöf sem við búum við á Íslandi um þessa miklu auðlind okkar sé skýr, nokkuð einföld, og ekki til þess fallin að skapa vafa eða óþarfa ágreining.

Mér sýnist að verið sé að stíga jákvætt skref. Ég mun eins og aðrir fara yfir málið í iðnaðarnefnd þar sem ég sit og marka að sjálfsögðu endanlega afstöðu að lokinni yfirferð þar. Ég held að það sé jákvætt að reynt sé að eyða þeirri óvissu sem vissulega hefur verið um framtíð laga um vatnamál og vatnalög. Því hlakka ég til að fara yfir málið í iðnaðarnefnd.