149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra erfi það ekki við mig þó að ég nefni það að hér ætlum við að leysa af hólmi lög sem eru ansi aldurshnigin — og úr sér gengin jafnvel — í ljósi þess að þau voru samþykkt hér á þingi 27. apríl 1962 þegar ráðherrann var sjö daga gamall, ef minni mitt er rétt. Ég held að við hljótum að vera sammála um að á þeim tíma hafi margt breyst varðandi það hvernig við öflum upplýsinga, hvaða upplýsingar hið opinbera þarf að halda utan um og hvernig við miðlum þeim. Sérstaklega á síðustu örfáu árum þar sem upplýsingabylting hefur átt sér stað.

Mig langar hér í þessu andsvari að velta fyrir mér þeim atriðum sem eru talin upp í 6. gr. varðandi skráningarupplýsingar þar sem við erum að tala að mestu leyti um atriði sem eru eiginleikar einstaklinga, hvað þeir heita, hvar þeir fæddust og hvenær. En svo kemur 15. töluliður sem er ekki um eiginleika einstaklings heldur kemur núna dálítið mikil langloka í texta frumvarpsins sem er um hvert gjöld til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skuli renna.

Þetta er gert vegna þess að það er ekki sjálfsagt mál, eins og ráðherra nefndi, að ríkið haldi þjóðskrá yfirleitt. En það að ríkið haldi skrá yfir trúar- og lífsskoðanir fólks er allt annað en sjálfsagt. Þess vegna er farin þessi, að ég vil meina, fjallabaksleið til að viðhalda því kerfi sem við höfum í kringum fjármögnun trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Mig langar að velta því upp með ráðherranum hvort (Forseti hringir.) þetta kauðslega orðalag 15. töluliðar sé kannski til marks um það að sóknargjaldakerfið þurfi að endurskoða og hvort skráningarhlutverk þjóðskrár á trúar- og lífsskoðunum fólks sé úr sér gengið.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)