149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:50]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar aðeins að víkja að fjármögnun þeirra breytinga sem fram undan eru við setningu þessara nýju laga, held ég að sé óhætt að segja. Nú kemur fram í mörgum málum sem varða þjóðskrána að mjög brýn þörf er fyrir breytingar. Að stofni til er kerfið sem þjóðskráin hvílir á gamalt og það er nokkuð viðurhlutamikið að gera breytingar.

Það er ýmislegt í samfélagi okkar sem er að breytast sem krefst þess að þjóðskráin sé tæknilega sveigjanleg. Má þar nefna atriði eins og umræður í tengslum við hugsanlegar breytingar á lögum um mannanöfn, breytingar á skráningu kyns, hugmyndir um tvöfalt lögheimili eða skipta búsetu. Allt þarf þetta að vera hægt að skrá og breyta í þjóðskránni.

Ef ég les rétt í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir framlögum í fjárfestingu á bilinu 70–80 milljónir á ári í þessum málaflokki. Í greinargerðinni með frumvarpinu eru talsvert hærri upphæðir sem Þjóðskrá Íslands sjálf gerir ráð fyrir að þurfi til framkvæmdanna. Ef að líkum lætur myndi ég halda að það væri frekar vanáætlað en hitt. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hann sannfæringu fyrir því að hægt verði að ráðast í breytingarnar?