149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

774. mál
[17:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er eftirtektarvert hvað virðulegur forseti les skýrt og vel allar kynningar og er það til fyrirmyndar.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, á þskj. 1231. Aðdraganda frumvarpsins má rekja til skýrslu alþjóðlega framkvæmdahópsins Financial Action Task Force, FATF, frá apríl 2018, þar sem m.a. kemur fram að nauðsynlegt sé að gera úrbætur á gildandi lagaumgjörð um framkvæmd þvingunarráðstafana sem stafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðastofnunum og varða frystingu fjármuna og skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir. Utanríkisráðuneytið er það stjórnvald sem samkvæmt forsetaúrskurði fer með málefni er varða framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða á grundvelli laga nr. 93/2008.

Frumvarpið er meðal þess sem aðgerðaáætlun stýrihóps Stjórnarráðsins um peningaþvætti frá ágúst 2018 kveður á um að gera skuli til að bregðast við athugasemdum í skýrslu FATF og tryggja að Ísland lendi ekki á lista FATF yfir áhættusöm ríki.

Í frumvarpi því sem hér er til 1. umr. er brugðist við fram komnum athugasemdum FATF og leitast við að tryggja að regluverk og framkvæmd frystingar fjármuna og efnahagslegs auðs, sem og skráning og afskráning aðila af lista yfir þvingunaraðgerðir, uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar Íslands gagnvart FATF og Sameinuðu þjóðanna.

Efni frumvarpsins er að meginstefnu til tvíþætt og varðar annars vegar framkvæmd við frystingu fjármuna og hins vegar skráningu aðila á lista í tengslum við þvingunaraðgerðir.

Frumvarpinu er skipt upp í sex kafla. I. kafli inniheldur markmið, gildissvið og orðskýringar. Markmið frumvarpsins er að hindra fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna með því að mæla fyrir um frystingu fjármuna í samræmi við tilteknar þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Fjallað er um framkvæmd frystingar fjármuna og efnahagslegs auðs í II. kafla. Í kaflanum er ítarlega útlistað hvernig framkvæma skuli frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs, en lagt er upp með að skylda til frystingar sé í samræmi við reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir. Með frystingu er ætlunin að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutninga, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslur, eignaskráningu sem og önnur viðskipti og hindra þannig að aðilar á listum yfir þvingunaraðgerðir fái greiðslur í hendur eða geti nýtt fjármuni með öðrum hætti. Frysting í skilningi frumvarpsins tekur til fjármuna og efnahagslegs auðs sem í heild eða hluta, beint eða óbeint, tilheyra, eru í eigu, í vörslu eða undir stjórn aðila sem skráður er á lista yfir þvingunaraðgerðir.

Í II. kafla er jafnframt kveðið á um heimild til undanþágu frá frystingu við tilteknar aðstæður og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem vegna fjármuna sem eru nauðsynlegir til að uppfylla grunnþarfir viðkomandi og efna til samningsskuldbindingar sem stofnað var til áður en kveðið var á um skyldu til frystingar. Í kaflanum eru einnig ákvæði sem tilgreina hvenær og hvernig aflétta skuli frystingu, m.a. ef staðfest er að fjármunir hafa verið frystir hjá röngum aðila. Loks er mælt fyrir um þær ráðstafanir sem tilkynningarskyldir aðilar þurfi að grípa til til að meta hvort viðskiptamenn þeirra séu á listum yfir þvingunaraðgerðir.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um hvernig fara skuli með tilnefningu á og afskráningu af lista yfir þvingunaraðgerðir. Kaflinn er að mestum hluta nýmæli og leiðir af athugasemdum FATF. Í kaflanum eru skýrar reglur um hvernig tilnefningin kemur fram, hvaða upplýsingar og gögn þurfa að liggja fyrir og hvernig tilkynnt er um skráningu á lista. Ráðherra er falið að tilkynna íslenskum ríkisborgurum um skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir. Einnig er kveðið á um endurskoðun ákvarðana um skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir og hvernig afskráningu er háttað. Vilji aðili ekki una ákvörðun um skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir getur hann höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi skulu slík mál sæta flýtimeðferð.

Í IV. kafla er fjallað um eftirlit og samvinnu þar sem Fjármálaeftirlitinu og ríkisskattstjóra er falið að hafa eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum í samræmi við eftirlitsskyldur sínar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Auk þess er í IV. kafla vikið að samhæfingu og samvinnu stjórnvalda vegna verkefna sem falla undir efni frumvarpsins og mælt er fyrir um að slík samvinna skuli fara fram á vettvangi stýrihóps sem skipaður er í samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Í V. kafla er fjallað um þvingunarúrræði og viðurlög. Farin er sama leið og í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og byggt aðallega á viðurlögum í formi stjórnvaldssekta.

Loks eru í VI. kafla ýmis ákvæði, svo sem reglugerðarheimild og gildistökuákvæði.

Markmið frumvarpsins er, eins og áður var vikið að, að bregðast við athugasemdum sem FATF gerði við varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og er unnið í utanríkisráðuneytinu í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóra, ríkislögreglustjóra, auk þess sem stýrihópur dómsmálaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti hefur verið upplýstur um framkvæmd málsins. Að þeim hópi koma auk framangreindra aðila fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Seðlabanka Íslands, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, skattrannsóknarstjóri, tollstjóri og fleiri.

Frumvarpið er hluti af aðgerðaáætlun stýrihóps um peningaþvætti frá ágúst 2018 til að bregðast við athugasemdum í skýrslu FATF og að tryggja að Ísland lendi ekki á lista FATF yfir áhættusöm ríki. Lendi ríkið á lista FATF yfir áhættusöm ríki er farið fram á að viðskipti við aðila sem búsettur er þar sæti aukinni áreiðanleikakönnun. Gerðar eru strangari kröfur um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel eru gefnar út aðvaranir um að viðskipti við aðila þessara ríkja gætu falið í sér hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Dæmi eru um að erlend fyrirtæki og fjármálastofnanir hafi frekar kosið að slíta viðskiptasambandi við ríki sem farið hafa á lista FATF, þar á meðal millibankaviðskiptum, í stað þess að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun, á ensku „de-risking“. Það getur því haft verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfið í heild sinni og trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi ef ekki er brugðist við tilmælum FATF fljótt og örugglega.

Mikilvægt er að frumvarpið fái þinglega meðferð nú á vorþingi til að hægt sé að taka það inn í árangursskýrslu sem skilað verður til FATF í júní nk. til að undirbúa fyrirtöku Íslands á aðalfundi FATF næsta haust þar sem lagt verður mat á hvort aðgerðir Íslands séu fullnægjandi til að koma í veg fyrir skráningu á lista FATF.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. utanríkismálanefndar og 2. umr.