149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019--2022.

771. mál
[17:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur var reyndar ekki á þingi þegar síðasti félagsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, þáverandi, fór fyrir þessum málaflokki, þannig að ég var ekki viðstaddur umræðuna sem hv. þingmaður vitnar til.

Hér er komin framkvæmdaáætlun til þess árafjölda sem gert er ráð fyrir samkvæmt barnaverndarlögum, þannig að ég get í rauninni ekki svarað því hvað hafi búið að baki hjá fyrrverandi ríkisstjórn eða fyrrverandi ráðherra.

Hvað veldur því að þetta kemur ekki fram fyrr en núna? Ég held að það sé m.a. vegna þess að þegar ég kom inn í ráðuneytið var áætlað að fara í mjög róttækar breytingar í þessum málaflokki. Mér fannst mjög mikilvægt að til þeirrar vinnu væru kallaðir allir aðilar sem að því koma og að við leyfðum okkur að hugsa út fyrir boxið en ekki í einhverjum plástralækningum, eins og verið hefur í allt of langan tíma. Það kann að valda því að þetta hefur tekið aðeins lengri tíma að verða til en ráðgert var. Á móti kemur að allir eru komnir um borð og eru mismunandi aðilar sem að þessu komu, bæði sveitarfélög og ríkisstofnanir, Samtök sveitarfélaga og fleiri, sammála um þær aðgerðir sem hér eru lagðar til, sem eru mjög metnaðarfullar og talsvert róttækari, vil ég fullyrða, en við höfum séð í talsvert langan tíma, jafnvel síðan barnaverndarlögin voru skrifuð á sínum tíma.

Ég legg áherslu á að þessi áætlun fái góða umfjöllun í þinginu og hún sé hugsuð út frá þeirri vinnu, þeim róttæku breytingum sem við erum að vinna að á barnaverndarlögum og félagslegri þjónustu við börn og að hún geti þá tekið breytingum samhliða því. Ég hef kannski ekki mikil svör fyrir hv. þingmann við spurningum hennar en vona að þetta dugi að einhverju leyti.