150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fá að leiðrétta mig vegna þess að þegar ég sagði 5–10 milljónir var ég náttúrlega ekki bara með votlendið, ég var með annað gróðurlendi sem losar inni í því. En ég minni bara á það sem ég var að segja. Við höfum ákveðna hugmynd um heildarumfangið. Ef við tökum bara lægri töluna, 5 milljónir, er það það sama og allt hitt sem fellur undir Parísarsamkomulagið. Og það þýðir auðvitað, þó að það væru ekki nema þessar 5 milljónir, að það þarf að vinna gegn því. (Gripið fram í.) Ég gef því lítið fyrir þau orð sem voru höfð hér uppi um að ég hefði ekki hugmynd um hvað ég væri að tala. (Gripið fram í.) Lækka skatta? Já, já, við gerum það t.d. í sambandi við rafbílakaup. Hækka skatta. Já, já. Það er nefnilega aðferð sem er notuð alls staðar, bæði að leggja á græna skatta og vera með skattaívilnanir, og það gerum við og það er hárrétt aðferð.

Varðandi vind- og vatnsafl er hægt að auka vatnsafl á Íslandi í núverandi virkjunum um mörg hundruð megavött, bæði með því að nota aukið rennsli og breyta blöðunum í túrbínunum. Það er hægt og það mun verða gert vegna þess að Landsvirkjun hefur talað um það.

Varðandi vindafl er það í sjálfu sér, ég segi ekki mjög umhverfisvæn en vel umhverfisvæn aðferð og vindorkugarðar skilja eftir sig lítil spor, það er auðvelt að fjarlægja þá. Það er síður þannig með vatnsvirkjanir. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða báða kosti, en allt á að vera inni í rammaáætlun og allt á að vera undir ákveðnu ferli sem þýðir það að við virkjum, hvort sem það eru fleiri vatnsvirkjanir, jarðhitavirkjanir eða vindorkuvirkjanir, í samræmi við þá orku sem við þörfnumst þannig að við vitum hvað við ætlum að gera við hana og gerum það undir ákveðnu heildarskipulagi þannig að ekki sé einhvers konar frumskógarlögmál sem ræður orkuöflun á Íslandi á neinu sviði.