Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

misnotkun á lyfjagátt.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er sérstakt mál. Ég get alveg sagt það hér strax að mér var ekki kunnugt um að þessi glufa væri til staðar, ekki fyrr en ég sá þetta í fréttum eins og hv. þingmaður. Mér finnst full ástæða fyrir Persónuvernd að gera athugasemdir við það, en það var reyndar ekki hluti af spurningunni. Mér finnst full ástæða til að kanna þetta mál og hvað það er sem þarf að gera til þess hreinlega að koma í veg fyrir þetta. Mér finnst þetta sérstakt og þetta er auðvitað á borði þeirra stofnana sem hv. þingmaður nefndi og embættis landlæknis. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hægt sé að loka á þessa glufu. Ég lagði það strax til í ráðuneytinu að senda þá fyrirspurn á landlækni og hvað þurfi þá til. Mér finnst þetta mjög sérstakt, svo að ég orði það nú bara mjög pent, og óraði ekki fyrir þessu. Það hefur svo sem ekki komið fram að það sé einhver sérstök misnotkun í gangi með viðkvæmar upplýsingar en það er ekki eðlilegt að þetta sé með þessum hætti.