153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

misnotkun á lyfjagátt.

[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ef það hefur farið fram hjá hæstv. ráðherra þá er það nú hluti fréttanna í Morgunblaðinu að þessum upplýsingum hafi einmitt verið dreift til þriðja aðila sem getur varla talist annað en misnotkun á þeirri stöðu sem viðkomandi starfsmaður hefur verið í. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra opinnar spurningar: Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér að gera annað en að senda fyrirspurn til undirstofnunar sinnar og hvert verður framhald málsins? Hefur ráðherra t.d. upplýsingar um það hvort kennitölum ráðherra í ríkisstjórn hafi verið flett upp eða annarra aðila sem stjórnvöld telja ástæðu til að haft sé sérstakt eftirlit með í tengslum við fjárhagslega hagsmuni? Er búið að gera einhverja úttekt á því hvort þeir hópar, nú nefni ég sérstaklega ráðherra ríkisstjórnarinnar, hafi verið undirorpnir skoðun sem þessari án þess að nein viðskipti með lyf væru því tengd?