Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

gögn um tollskráningu.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var nú margt sagt sem ég verð að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi var því haldið fram að fyrir hefði legið einhver niðurstaða Evrópusambandsins, hvorki meira né minna, þegar um er að ræða skoðun embættismanns í tölvupósti. (SGuðm: Ég er ekki að tala um hann.) Síðan er vísað í niðurstöðu Alþjóðatollastofnunarinnar sem er fengin eftir að þessi samskipti öll eiga sér stað, þannig að það verður að hafa það í huga hver tímalínan er í málinu. Þegar hv. þingmaður segir að starfsmenn tollsins hafi borið með einhverjum hætti fyrir dómstólum þá þekki ég það mál bara einfaldlega ekki, hvað nákvæmlega var sagt þar. Ég get hins vegar sagt það alveg eins og er að það eru gríðarlega miklir hagsmunir undir almennt varðandi flokkun á tollvörum og það skiptir miklu máli að þær séu rétt flokkaðar, séu bæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og eins líka að við stöndum við þá tollvernd sem við höfum lofað að veita gagnvart innlendum framleiðendum.

Það er nú upphaf þessa máls að mikil áhersla er lögð á það við ráðuneytið að gengið sé úr skugga um það að innfluttur ostur, sem hér átti undir, sé rétt tollaður. Ég lít bara þannig á (Forseti hringir.) að það sé skylda okkar í ráðuneytinu að ganga eftir því við Skattinn að það sé tryggt að menn séu ekki að flytja inn vöru í röngum tollflokki. (Forseti hringir.) Ég skammast mín ekkert fyrir að segja að það sé ein af eftirlitsskyldum okkar gagnvart þeim stofnunum sem undir ráðuneytið heyra. En að við (Forseti hringir.) höfum þá skoðun að vara eigi að vera í einum tollflokki umfram aðra er hins vegar rangt, eins og mér fannst hv. þingmaður vera að gefa í skyn.