Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[15:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sína framsögu og lýsa sérstakri ánægju með breytingarnar sem lagðar eru til á lögum um virðisaukaskatt. Mig langar hins vegar að setja hérna fram hugleiðingar um restina af frumvarpinu, þær aðgerðir sem þar eru lagðar til, og velta aðeins upp heildarsamhengi þeirra og heildaráhrifunum. Við erum annars vegar með lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts af vinnu manna við m.a. nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þetta er aðgerð sem er viðurkennt að ýtir upp byggingarkostnaði og er til þess fallin að hægja á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, hefur sem sagt neikvæð áhrif á framboð á húsnæðismarkaði. Hins vegar erum við með skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar, séreignarsparnaðarleið sem svo hefur verið kölluð. Það er auðvitað aðgerð sem hefur örvandi áhrif á eftirspurn á húsnæðismarkaði og það er nú bara viðurkennt hérna í greinargerð að þetta sé aðgerð sem ætti almennt að leiða til þess að húsnæðisverð verði hærra en ella á þeim tíma sem framlenging úrræðanna nær til. Þannig að ég velti fyrir mér þessu heildarsamhengi, hvort hér sé ekki verið að leggja til annars vegar aðgerð (Forseti hringir.) sem dregur úr framboði og hins vegar aðgerð sem ýtir undir eftirspurn (Forseti hringir.) og þar með í raun stuðlar að auknu misvægi framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði — hvort ráðherra deili þessum áhyggjum.