Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alltaf í góðum samskiptum við Skattinn og tökum ábendingum frá Skattinum um atriði sem geta horft til aukinnar skilvirkni í skattframkvæmdinni. Ég ætla nú bara að leyfa mér að segja að hérna séum við dálítið að fjalla um skussana í virðisaukaskattskerfinu, þá sem skila ekki skýrslum, og jafnvel er ástæða til að óttast að hér séu mikil tengsl við það sem við höfum kallað kennitöluflakk, þar sem eru sífellt stofnaðar nýjar kennitölur til að hefja sömu atvinnustarfsemina og taka við virðisaukaskatti samkvæmt einhverjum reikningum sem síðan á endanum er ekki skilað. Við getum sagt að Skatturinn sé hér að fá leyfi til að, ja, við gætum kannski sagt ef við notum íþróttamál, að senda viðkomandi í tveggja mínútna brottvísun og síðan verður það metið, það þarf auðvitað að beita meðalhófi, hvort viðkomandi getur aftur fengið að koma inn á virðisaukaskattsskrána.