Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins varðandi byggingarkostnaðinn þá hef ég nú verið að benda á það hér að jafnvel þótt byggingarkostnaður sem slíkur geti hækkað með þessari breytingu varðandi endurgreiðslurnar þá virðist afkoman af byggingu nýrra íbúða vera slík að það sé gott svigrúm þar og það sé engin ástæða til að ætla að þessi breyting á byggingarkostnaði rati beint út í verðlagið.

Varðandi hitt, sem er úttektin á séreignarsparnaðinum og ráðstöfun inn á fasteignalán, þá höfum við látið vera að búa til vísitölu fjölskyldunnar sem við teljum að úrræðið henti helst. Staða fólks er bara svo fjölbreytt og ólík. Það er alveg rétt að það er ákveðið hlutfall sem hefur farið til fyrstu íbúðarkaupa en við mátum það þannig á sínum tíma og metum það enn — og höfum nú fengið eindregna ósk frá leiðtogum stéttarfélaganna sem voru að ljúka kjaralotunni hérna fyrir áramót að úrræðið skipti þeirra félagsmenn gríðarlega miklu máli. Og það kemur mér ekkert á óvart. Það er erfitt að tala þannig um þetta mál, þegar tugir þúsunda einstaklinga eiga undir, að það sé eitthvert svona dæmigert tilvik sem við eigum að hafa í huga. Ég held að við eigum bara að láta vera að reyna að skilja nákvæmlega hvers vegna fólk vill beita úrræðinu.