Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég árétta spurninguna og kannski bara einfalda hana: Er ráðherra búinn að valda málið í sínum eigin flokki hér innan þingsins? Eru ríkisstjórnarflokkarnir að fara að samþykkja þetta mál? Ég spyr að gefnu tilefni af því að í lokakafla ræðu hæstv. ráðherra láðist henni að tala um mikilvægi þess að Alþingi færi kannski ekki aftur að hrófla mikið við þessu orðalagi, til þess að við myndum ekki lenda aftur í sama pyttinum og við höfum verið í síðustu 30 ár; að búa til tilefni fyrir okkur löglærða að fara nú að efast um að orðin túlki það sem þau eiga að túlka og við förum enn og aftur að þvæla málum inn í dómstóla þannig að íslenska ríkið verður rekið til baka aftur og aftur með þetta. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að valda málið, tryggja að þetta verði ekki að einhverju klúðri hérna innan húss (Forseti hringir.) af því að við erum alveg flink í því líka, þingmenn, að klúðra málum og þurfa svo að fara að taka til, (Forseti hringir.) ár eftir ár, þegar búið er að gera einhverja kraftmálamiðlun sem er alger óþarfi og við þurfum að koma í veg fyrir í þessu máli.