Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið eins og það stendur er auðvitað orðað þannig að ég stend við málið eins og það er og ég tel það leysa úr vandanum og tryggja það að bókunin sé réttilega innleidd og þar með geti einstaklingar og lögaðilar gengið að því vísu að hér gildi sömu reglur þar sem það eiga að gilda sömu reglur. Auðvitað þarf að huga að því að orðalaginu verði ekki þannig breytt að við séum að flækja stöðuna enn frekar í staðinn fyrir að leysa hana. En ég er hins vegar að mæla fyrir málinu og koma því inn í þingið þar sem þingið tekur við því og það fær sína þinglegu meðferð og ég treysti þinginu til að fara yfir það og kalla til þá sem þarf að kalla til, bæði til þess að svara spurningum sem vakna hjá þingmönnum eða þingmenn vilja bera upp út af einhverri umræðu annars staðar. Ég tel málið hafa stuðning innan stjórnarflokkanna enda fór það í gegnum ríkisstjórn og stjórnarflokka, (Forseti hringir.) þó þannig að það eru fyrirvarar við málið og krafa um að það verði skoðað vel í þinginu. Og ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við að það verði skoðað vel í þinginu sjálfu.