Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru svo sem góðar og gildar ástæður sem stóðu til þess að gripið var til varna í málinu gagnvart ESA. Það stóðu m.a. vonir til þess að dómstólar myndu e.t.v. breyta framkvæmd sinni varðandi túlkun 3. gr. svo að ekki þyrfti að grípa til lagabreytinga en sú hefur ekki orðið raunin. Þá þótti ástæða til að láta reyna á málflutning Íslands sem nú þykir einfaldlega fullreynt. Málið hefur auðvitað verið til skoðunar um nokkurra ára skeið og það hefur verið ítarleg skoðun og það hafa starfshópar verið settir af stað; m.a. eftir bréfasendingar og samskipti við ESA var settur á starfshópur sem komst að þeirri niðurstöðu að leggja ætti frumvarp fram sem ítrekaði þessa skuldbindingu, að við ætluðum að standa við efnisinnihald bókunar 35. Af undirbúningsgögnum með frumvarpinu til EES-laganna á sínum tíma sést að löggjafinn hafði ætlað að koma á fullri virkni bókunar 35 með setningu 3. gr. laganna. Ég segi bara: Það voru ástæður fyrir því að skoðaðar voru aðrar leiðir og það var litið til þess að dómstólar gætu breytt sinni túlkun á grundvelli laganna eins og þau eru, sem hefur ekki gerst. En það sem kannski situr eftir í svona umræðu um þetta er að þegar við vitum dæmi þess að einstaklingar og lögaðilar njóta einfaldlega ekki þess réttar sem þeir eiga að njóta samkvæmt samningnum sem við höfum skuldbundið okkur til að standa við, er þá ekki áhugi á því hjá íslenskum stjórnvöldum eða hv. þingmanni að bæta úr því? Er það sanngjarnt gagnvart einstaklingum og lögaðilum að þeir njóti ekki þess réttar sem þeir eiga að njóta samkvæmt EES-samningnum? Ég vil að einstaklingar og lögaðilar njóti þess réttar sem EES-samningurinn segir til um og fólk í sömu stöðu annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu gerir (Forseti hringir.) vegna þess að þetta snýst bæði um réttindi og skyldur. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ég vil að þessir hlutir séu í lagi. Það kemur í ljós að svo er ekki og þá er þetta tillaga til þess að bæta úr því.