Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur andsvarið. Ég er mjög efins um að þeir þingmenn sem stigu það gæfuspor fyrir réttum þremur áratugum síðan að taka ákvörðun um að Ísland yrði aðili að EES-samningnum hafi haft nokkrar forsendur til að átta sig á því með hvaða hætti samningurinn myndi þróast. Ég held að það væri framsýni sem engum hér inni sé raunverulega gefin. Það er engin ástæða til að reikna með því að þeir sem sátu hér á þingi fyrir 30 árum síðan hafi haft nokkurn möguleika á að átta sig á því með hvaða hætti EES-samningurinn myndi þróast og Evrópusambandið í heild sinni. Það var forsenda — þetta er algjört lykilatriði að mínu mati — það var forsenda fyrir því að menn undirgengjust, tækju þátt og gerðust aðilar að EES-samningnum að Ísland gæti hafnað innleiðingu reglna sem annaðhvort ættu ekki við eða gengju gegn hagsmunum Íslands.

Ég er auðvitað ekki í neinni stöðu til að spyrja hv. þingmann, hlutverkin eru öfug núna, en til hvers telja menn til að mynda að 102. gr. sé inni í samningnum? Er það bara af því að það var pláss á síðunni? Auðvitað er það ekki þannig. Það var eitthvert tilefni, það var einhver tilgangur með 102. gr. Þetta er nú bara til að undirstrika að það er augljóst að menn höfðu réttmætar væntingar til þess að ef hér ætti að uppáleggja Íslandi regluverk sem ætti ekki við eða gengi gegn hagsmunum íslenskrar þjóðar þá gætu menn neitað innleiðingu, hafnað regluverkinu.

Því held ég að það sé algjörlega augljóst að þeir þingmenn sem samþykktu þetta fyrir 30 árum síðan áttu engan möguleika á að sjá með hvaða hætti samningurinn myndi þróast. (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst að — ég kannski kem inn á það í seinna andsvari, viðbótin sem ég ætlaði að koma með er of löng.