Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég orðaði kannski ekki hugsun mína nægilega skýrt áðan. Ég var nú að vísa til Miðflokksmanna allra flokka sem almennt eru að tala um þetta mál í samfélaginu öllu. Þeir eru margir í Sjálfstæðisflokknum en líka öðrum flokkum hér á þingi og maður veit til þess líka að það eru ákveðnar efasemdir um það hvernig eigi að gera þetta innan þingflokks VG. Þetta er allt saman bara mjög áhugavert og verður áhugavert að fylgjast með þessu. Ég heyri það að menn eru að brýna sig upp í ansi mikla umræðu hér um þetta mál þegar það kemur til þings aftur úr nefnd og gott og vel, þá sjáum við bara hvað gerist.

En ég árétta bara það sem ég sagði hér áðan: Allt tal um fullveldi og allt tal um sjálfstæði, það er fullkomlega marklaust ef við nýtum það ekki til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Það væri sjálfsagt ágætt fyrir mig ef ég ætlaði bara að hugsa um einhverja persónulega hagsmuni gagnvart Viðreisn og Evrópusambandinu að Ísland gengi úr þessu EES-samstarfi vegna þess að það er borðleggjandi að við yrðum fljót inn í Evrópusambandið ef það yrði. (Forseti hringir.) Þannig að ég þakka bara fyrir skoðanaskiptin og ætla að drífa mig heim að lesa Sjálfstætt fólk.