Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:00]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Við erum í afskaplega þægilegri stöðu hér. Einn af fremstu tónlistarmönnum Breta smeygði sér inn í íslenska ríkisborgararéttinn rétt áður en þetta brast á og þakkar mjög fyrir það í dag. Úr því að hv. þingmaður tekur nú tónlistarbransann inn í umræðuna þá er alltaf fleiri en ein leið að hlutunum. Ég hef skilið frústrasjónir Breta inni í Evrópusambandinu mjög vel, hafandi búið þar í á annan áratug á tveimur tímabilum í mínu lífi. Þeir eru sjálfstætt þenkjandi eylendingar eins og við Íslendingar. Það lætur Bretum almennt illa að láta stafa ofan í sig á framandi tungumálum hvað þeir eiga sjálfir að taka sér fyrir hendur og hvernig þeir eiga að sitja og standa, alveg eins og það kemur mörgum Íslendingum óþægilega í skjöldu hvað þessir 30.000 harðduglegu embættismenn eru að skrifa ofan í okkur, stórt og smátt, ár eftir ár. Við tökum 650 mál og afgreiðum þau öll á einn veg, meira eða minna, með litlum athugasemdum eða fyrirvörum. Þetta yrðu 2.100 tilskipanir ef við gengjum inn í Evrópusambandið. Þá myndum við í nefndunum varla hafast mikið annað að en að þjónka og hlýða hinum grísku, ítölsku og spænsku embættismönnum sem aldrei hafa komið til Íslands eða kynnt sér nokkurn skapaðan hlut hér. Það er gallinn við þetta, að láta fólk sem þekkir ekki til aðstæðna segja sér stórt og smátt. Í 30 ár seldi ég miða á mína tónleika úti í Eymundsson eða í 10–11 án þess að borga krónu fyrir það. Nú er komið tix.is og þú getur ekki farið í Hörpu öðruvísi en að borga einhver 10% í „commission“ af miðasölunni. (Forseti hringir.) Þetta þarf ekki að vera svona og ég segi: Þó að við gengjum út úr öllum samböndum þá gætum við komist til starfa og ferðast — það yrði aðeins meira vesen.