Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skoðanaskiptin í þessu. Mig langar þó kannski að segja í minni seinni ræðu að mér finnst það liggja algerlega skýrt fyrir að íslenskt samfélag tók stökkbreytingu til hins betra. Það færðist í raun og veru inn í nútímann þegar við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið. Auðvitað er þetta ekkert gallalaust. Ástæðan fyrir því að minn flokkur t.d. talar fyrir því að það geti verið miklu betra að taka skrefið til fulls og ganga inn í Evrópusambandið er að þá höfum við einmitt áhrif á allt þetta sem hv. þingmaður var að nefna hér, þ.e. við getum komist að borðinu, myndað bandalög með þeim sem hafa svipaða hagsmuni um þá hagsmuni og haft áhrif með beinum hætti á löggjöfina. Þegar við tölum um fullveldið þá felst meira fullveldisafsal í EES-samningnum heldur en í fullri aðild að Evrópusambandinu, einfaldlega vegna þess að þar höfum við áhrif sem við höfum í sjálfu sér ekki á EES-samninginn. En hann var mikið gæfuspor og teygði sig inn á öll svið samfélagsins, gerði viðskipti frjálsari og gerði það að verkum að við getum gert eitt og annað í útlöndum, rekið fyrirtækin okkar á stærri markaði, og með það hvað einstaklingar á Íslandi geta gert í öðrum löndum þá virkar það auðvitað í hina áttina líka. Ég hef skilið þetta mál þannig, sem hér er undir og við erum að ræða, að það sé lagt fram til að tryggja að það sé algjörlega geirneglt niður, sama hvort um er að ræða Íslendinga á Íslandi sem vilja fara eitthvað annað og reyna fyrir sér á Evrópska efnahagssvæðinu eða öfugt, að réttindin séu hin sömu líkt og áskilnaður er um í þessu EES-samstarfi. Því fagna ég að við séum að ræða þetta mál og tek alveg undir það sem menn hafa verið að segja. Það er bara fínt að þingið leggist yfir þetta með okkar helstu sérfræðingum og skoði og rýni þetta allt saman. (Forseti hringir.) En er hv. þm. Jakob Frímann Magnússon ekki sammála mér í því sem ég hef sagt hér áður og ætla að segja enn eina ferðina: (Forseti hringir.) Er fullveldið einhvers virði ef við nýtum það ekki í samstarfi með öðrum þjóðum til þess að búa í haginn fyrir fólkið í landinu?