Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á biðinni, ég hélt að menn vildu ræða þetta mál meira en raun ber vitni en það eru margir greinilega að reyna að forðast það. Það er orðið að lensku í stjórnmálum á Íslandi og reyndar víðar að þeim mun stærri sem málin eru, þeim mun minna er gert úr þeim. Við sjáum það aldeilis í tilraunum margra þeirra sem hafa rætt þetta mál að reyna að gera sem allra minnst úr tillögu um það að löggjöf sem á rætur sínar og er samin í Brussel hafi forréttindi, verði æðri lögum sem samin eru hér á Alþingi. Stærri geta málin nú varla verið. En af því að þetta er stórt mál þá leitast menn við að gera lítið úr því. Ég hef orðið þess áskynja eftir að hafa fylgst með umræðunni að það er útkall hjá Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið „memó“ um Fit for 35 í þessu tilviki, þ.e. að nú þurfi allir að standa að því að klára þessa bókun 35, hina alræmdu, rétt eins og sami flokkur reynir nú að troða í gegn svokallaðri Fit for 55. Ég veit að hæstv. forseti vill að við tölum íslensku hér og ég leitast við að gera það en ég vísa hér í erlend heiti. Í formi fyrir 55 er stefnan í umhverfismálunum, flugbannsmálið sem má kalla svo, og nú er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í formið fyrir 35, allir með í bókun 35. Hún gengur út á það að regluverk Evrópusambandsins hafi forgang yfir það sem við gerum hér, þau lög og þær reglur sem við semjum hér á Alþingi Íslendinga. Þetta veldur mér áhyggjum.

En þetta er svolítið lýsandi fyrir stöðu stjórnmála á Íslandi nú til dags. Það er kannski lýsandi líka fyrir það hvernig hlutirnir hafa þróast og á hvaða hátt menn skiptast í ólíkar fylkingar, að þeir sem hafa helst mætt í viðtöl eða jafnvel hér í ræðustól fram að þessu til að verja þetta mál eru þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Sjálfstæðisflokkurinn, eða flokkurinn eins og við eigum víst að kalla hann núna, skákar í skjóli Samfylkingar og Viðreisnar. Þeirra fulltrúar eru kallaðir í viðtöl eða fjallað um þá í fréttum til að verja það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að innleiða núna með þessari ályktun, þessum lögum. Við heyrum í umræðunni í dag og reyndar í aðdraganda þessarar umræðu marga gamla frasa sem við höfum fengið að heyra á síðustu misserum: Þetta skipti engu máli. Þetta var ákveðið fyrir 30 árum. Af hverju hafið þið þessar áhyggjur? Þar er jafnvel vísað í þriðja orkupakkann, að á þeim tíma hafi menn haft áhyggjur og svo bara gerist ekki neitt. En eins og við ítrekað bentum á í þeirri umræðu koma áhrifin ekki fram fyrr en tannhjól kerfisins hafa snúist nokkra hringi. Þetta er nefnilega alltaf sama sagan, hvort sem við ræðum byggingu nýs Landspítala, borgarlínu eða annað. Fyrst er grunnurinn lagður, fyrst eru reglurnar settar og því haldið fram að þetta skipti engu máli og svo þegar búið er að klára málið þá líður ekki á löngu áður en farið er að taka stórar ákvarðanir og við hér í þinginu fáum að heyra: Bíddu nú við, þið samþykktuð þetta á sínum tíma. Þetta er líklega stærsta málið af þeim toga sem við höfum fengist við a.m.k. í langan tíma á Alþingi. Stjórnvöld virðast nefnilega annaðhvort ekki gera sér grein fyrir því hvernig kerfið virkar eða vilja líta fram hjá því. Kerfið virkar þannig að við kjörnir fulltrúar erum hvattir til að samþykkja eitt og annað á þeim forsendum að þetta sé tæknileg breyting, þetta skipti engu máli, það þurfi bara að koma þessu í gegn, þangað til að búið er að samþykkja málið og við kjörnir fulltrúar fáum að heyra að það sé bara allt of seint að gera neitt í þessu af því að við höfum samþykkt þetta á sínum tíma. Svoleiðis að kerfið leggur línurnar og allt í einu veit enginn hvaðan á sig stóð veðrið. Svo kemur hér hæstv. utanríkisráðherra upp og talar mjög á þessum nótum. Þetta er bara smámál, hefur engin raunveruleg áhrif. Þetta var í rauninni ákveðið fyrir 30 árum, tæknilegt atriði að afgreiða það.

En hvers vegna? Hvers vegna vill Evrópusambandið fyrir alla muni núna að við breytum þessu, að við tryggjum gildi bókunar 35? Það er vegna þess að Evrópusambandið ásælist aukin völd, ég skal bara segja það hreint út, og hefur gert það lengi, bæði gagnvart löndum innan sambandsins og þeim löndum sem tilheyra EES-samningnum. Það hafa orðið uppákomur hér á Íslandi sem Evrópusambandinu bara líkaði alls ekki við, sérstaklega eftir bankahrunið. Ég skal fullyrða það, herra forseti, að ef þetta mál hefði verið afgreitt áður en þjóðin gekk í gegnum bankahrunið og við stjórnmálamenn fórum að takast á við það þá hefðum við ekki getað beitt þeim úrræðum sem við þá höfðum. Við hefðum ekki getað nýtt fullveldisréttinn að því marki sem við gátum gert, til að mynda við að takast á við fall bankanna, síðan stríðið við slitabú bankanna, skuldaleiðréttingu o.s.frv. Ég gekk í gegnum þetta stríð allt, herra forseti, og upplifði og það var allt reynt. Það var reynt að vísa í það að við hefðum ekki heimild til að gera þá hluti sem við töldum nauðsynlega. Það var vísað í Evrópureglur umfram allt. Ég hitti sendiherra Evrópuríkja sem vísuðu í slíkar reglur. En við gátum alltaf bent á, Íslendingar, að við hefðum enn fullveldisréttinn, okkar stjórnarskrá og okkar lög væru enn æðri evrópskum tilskipunum. Og þetta kallaði á andsvör, þetta kallaði á reiði oft og tíðum en við höfðum réttinn okkar megin af því að við vorum ekki búin að gefa hann eftir.

Þess vegna gremst mér að sjá sérstaklega hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hér upp og reyna að gera lítið úr þessu máli, það skipti í rauninni engu, það hefði átt að klára þetta fyrir 30 árum og hverju munar það þó að við leiðréttum þetta aðeins? Þó segir í texta frumvarpsins berum orðum að lög og reglur samin í Brussel skuli verða æðri þeim lögum sem Alþingi Íslendinga, stofnað árið 930, setur. Þetta finnst mér áhyggjuefni og enn ein áminningin um það að allt of margir séu farnir að vanrækja gildi sjálfstæðis, gildi fullveldisins, búnir að gleyma hversu verðmætt það raunverulega er, jafnvel farnir að reyna að reikna í einhverjum tilvikum eins og við heyrum hér á síendurteknum ræðum um hversu stórkostlegur EES-samningurinn er. Hann hefur gert margt gott, í efnahagsmálum okkar ekki hvað síst, en ræðurnar eru í auknum mæli farnar að bera keim af sértrúarsöfnuði. Hver dirfist að gagnrýna þennan samning sem hefur gert okkur svo margt gott? Himnarnir myndu hrynja ef við virtum ekki samninginn að fullu. Og þá vilja menn ekki heyra á það minnst að það sem lagt var upp með þegar samningurinn var gerður skuli gilda, til að mynda það sem var nú kannski aðalatriðið á sínum tíma og líklega langstærsta atriðið, að ef setja ætti reglur sem féllu ekki að aðstæðum á Íslandi og hentuðu okkur ekki þá gætum við sagt nei, þá gætum við sett fótinn niður.

Það var mjög uppörvandi og áhugavert að hlýða hér fyrr í kvöld á ræðu hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar sem átti sannarlega stóran þátt í því að þetta gekk í gegn á sínum tíma og hann gæti hæglega státað sig af því að hafa lagt mikið á sig við að innleiða samning sem hefur haft vissulega á margan hátt mjög jákvæð áhrif fyrir samfélagið, í samstarfi ekki hvað síst við fólk í Alþýðuflokknum og þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, o.s.frv. En þessi hv. þingmaður, einn af þeim sem fylgdi þessu úr höfn og barðist fyrir því, kom engu að síður hér upp og sagði: Við gerðum þetta á ákveðnum forsendum og þær forsendur snerust ekki hvað síst um það að við hefðum áfram fullveldi, við hefðum áfram rétt til að segja já eða nei. Eins hvernig samningurinn var upphaflega hugsaður sem efnahagslegt samstarf en hefur síðan þróast út í eitthvað allt annað. Ég minnist þess, herra forseti, þegar ég starfaði á fréttastofu Ríkisútvarpsins og fjallað var um EES-samninginn og við sýndum samninginn eins og hann var samþykktur 1993, 1994. Þetta voru fjórir bæklingar. Nú er þessi samningur, þessi lifandi samningur eins og hann er kallaður, orðinn fleiri hillumetrar af möppum og enginn bregst við. Enginn tekur í taumana. Enginn þorir að segja, alla vega ekki hér á Íslandi: Bíddu nú við, við samþykktum þetta á þeim forsendum að við gætum gripið inn í. Nema hv. þm. Jakob Frímann Magnússon, hann gerði það hérna áðan. Hann þekkir tildrögin, hann þekkir baráttuna fyrir innleiðingu samningsins og veit að þessi samningur er ekki trúarritning. Hann var samþykktur á ákveðnum forsendum og þar var alger grunnur að fullveldi landsins yrði varðveitt. Fyrir vikið finnst mér með ólíkindum að flokkurinn, eins og hann er kallaður nú, skuli ætla að troða hér í gegn, svona í krafti einhverra ímyndarstjórnmála og auðvitað með aðstoð þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar í útvarpsviðtölum og sjónvarpi og annars staðar, samþykkt Alþingis á því að evrópsk lög, Brussel-reglur, trompi lög Alþingis, lög sem eru samin á Íslandi eins og þau hafa verið gerð, af og á, frá árinu 930.

Þetta mun hafa mjög verulegar afleiðingar þótt menn kannist ekki við það núna. En er það ekki alltaf svo, herra forseti, að stóru málin er best að keyra í gegn með lítilli umræðu og svo bara sjáum við hvað gerist? Við getum ekki leyft okkur þetta lengur því að við höfum upplifað það hér á þingi og samfélagið allt að færibandið frá Brussel heldur áfram að skila okkur reglugerðum og lögum sem við hér á Alþingi höfum oft og tíðum ekki hugmynd um hvaða áhrif muni hafa. Við fáum skýringar á nefndafundum frá embættismönnum sem leggja sitt mat á þetta og svo eru málin afgreidd. Svo fáum við símtöl, einu ári seinna til að mynda, frá fólki sem skilur ekki í hverju það er lent. Það var víst samþykkt eitthvað á Alþingi um þetta og þetta og ég er búinn að leita eins og ég get að upplýsingum um hvernig ég á að uppfylla þetta. En ég fæ bara sektir. Ég er að vísa hér í raundæmi, herra forseti.

Nú er það lagt til að sá varnagli, sá sterki varnagli sem þó var til staðar, að íslensk lög væru æðri því sem kemur á færibandinu, skuli afnuminn. Eru menn gjörsamlega búnir að missa trú á mikilvægi fullveldis? Og ef menn vilja reikna allt í krónum eða evrum: Eru menn búnir að missa trúna á verðmæti fullveldis? Mér þykir það vera staðan hér þegar þetta mál er kynnt rétt fyrir sumardaginn fyrsta og menn virðast vonast til þess að það fljóti einhvern veginn bara í gegn eins og svo mörg önnur vitleysan sem við höfum upplifað á síðustu misserum.

Það er reyndar miklu fleira annað, herra forseti, sem ég þarf að nefna. Ég er ekki einu sinni búinn að klára innganginn. Ef einhver annar hv. þingmaður vill halda ræðu á eftir mér þá bið ég hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.