Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra, eins og fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar í umræðu um þetta mál, leggja sig fram við að tala máli Evrópusambandsins og útskýringa þess á hlutunum. En ég skal svara spurningum hæstv. ráðherra, til að mynda varðandi áhrifin eftir bankahrunið. Þegar á Íslandi voru sett lög, neyðarlög, um forgang innstæðueigenda umfram aðra kröfuhafa í banka var það ekki í samræmi við Evrópureglur, jafnvel Evrópureglur sem höfðu verið innleiddar hér. Það sem gilti var að land væri að takast á við neyðarástand og íslensk lög og stjórnarskrá giltu. Þetta fór fyrir dómstóla og niðurstaða náðist okkur í hag. Þegar við áttum í stríði, hreinu stríði við slitabú bankanna, linnti ekki látum þar sem fulltrúar þeirra, lögfræðingar og aðrir talsmenn, vísuðu stöðugt í Evrópureglur sem Ísland hefði látið sig hafa að samþykkja og þyrfti að fylgja í þessu efni. Við vísuðum í fullveldisrétt og sögðumst tilbúnir til að fylgja málinu til enda. Og hvernig fór það mál? Ísland vann, heimili landsins, landsmenn. Skuldaleiðréttingin — sama saga. Því var haldið fram að það mætti ekki færa fjármagn frá fjárfestum í bönkunum til skuldsettra heimila samkvæmt Evrópureglum, en íslensk lög og íslenska stjórnarskráin giltu. Það sem þessi ríkisstjórn þarf að fara að átta sig á er munurinn á de juris og de facto. Þessi ríkisstjórn lætur teyma sig ítrekað út í það að elta það sem henni er sagt að séu reglurnar en lítur fram hjá de facto, staðreyndum lífsins.