Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að EES-reglur hafi einmitt ekki komið í veg fyrir að hægt væri að takast á við bankahrunið. Þær stóðu þvert á móti til þess að innstæðutrygging vegna Icesave-reikninganna lenti á hinum raunverulega skuldara, bankanum sjálfum, en ekki ríkissjóði. Á því byggðist málflutningur stjórnvalda og hann var staðfestur í öllum atriðum af hinu umrædda kerfi sem hv. þingmaður er hér að tala um. Með þessu frumvarpi er á engan hátt verið að raska lagasetningarhlutverki Alþingis. Það er ekki verið að taka það hlutverk úr höndum Alþingis og það er fjarstæða að verið sé að fela erlendum aðila það vald. Það er okkar ákvörðun hverju sinni að taka upp gerðir og reglur sem falla undir svið EES-samningsins í þann samning og þá með breytingum eða aðlögunum eftir atvikum og gera það þar með að íslenskum lögum. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem er að breyta því, enda erum við hér ekki að taka nýja ákvörðun heldur að tryggja það að við séum að standa við þær skuldbindingar sem gefnar voru fyrir 30 árum síðan.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur mjög skýrt fram að það er ekki verið að raska rétthæð réttarheimilda, eins og ég nefndi áðan. Ef hins vegar stjórnvaldsfyrirmæli, t.d. reglugerð sem innleiðir EES-reglur, stangast á við almenn lagaákvæði er það löggjafinn einn sem getur gripið inn í og breytt viðkomandi lagaákvæði eða tekið það úr gildi eða mælt fyrir um forgang með sérstökum og afmörkuðum hætti. Þetta frumvarp mælir nefnilega ekki fyrir um forgang annarra EES-reglna en þeirra sem einmitt Alþingi hefur innleitt með lögum eða heimilað stjórnvöldum að innleiða með stjórnvaldsfyrirmælum, sem er þá oftast í reglugerðum. Þannig að þær fullyrðingar sem hafa komið fram um að lagasetningarvaldið sé tekið úr höndum löggjafans fá bara einfaldlega ekki staðist.

Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að heyra það skýrt frá hv. þingmanni hvort hann telji EES-samstarfið hafa gengið of langt og ef svo er, hvar hann vilji helst draga úr því, hvort hann telji að Ísland eigi að vera í EES-samstarfinu eða ekki og þá að öllu leyti eða að hluta og hvort hv. þingmaður telji að forsendur EES-samstarfsins séu brostnar og hvað hann vilji þá gera í því.