154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það hafa verið sviptingar í pólitíkinni síðustu vikur og daga. Brotthvarf forsætisráðherrans skapaði meiri óvissu en ég og fleiri reiknuðum með. Það varð minni hlutanum í þinginu efni til endalausra vangaveltna um stjórnleysi í landinu. Það var látið vaða á súðum og sérfræðingarnir í öllum málum gátu varla þverfótað fyrir eigin krummafót yfir míkrafón fréttamiðlanna sem ekki létu sitt eftir liggja. Það verður að segjast eins og er að leikþættir minni hlutans í fjölmiðlum eru lágreist framkoma, en fyrirséð. Það ætti frekar að valda þeim áhyggjum að ekkert alvörustjórnmálaafl í þinginu vill vinna með þeim. Vanhæfi og sundurlyndi minni hlutans er lím ríkisstjórnarinnar. Ágætur maður sagði við mig að oft væri hann óánægður með ríkisstjórnarflokkana en það breyttist fljótt þegar hann heyrði rausið í minni hlutanum.

Virðulegur forseti. Ekki var nú minni gauragangur í sérfræðingum allra mála í þinginu í gær þegar þeir ræddu nýsett búvörulög undir liðnum fundarstjórn forseta. Þar var meiri hluti atvinnuveganefndar skammaður fyrir vinnubrögð við setningu nýrra búvörulaga. Minni hlutinn vildi koma því á framfæri að það ættu að vera ráðuneyti og félagasamtök úti í bæ sem ættu að ráða því hvernig við hefðum hlutina í þinginu en ekki þingið. Löggjafinn er Alþingi og niðurstaða atvinnuveganefndar var staðfest sem lög frá Alþingi.

Virðulegi forseti. Það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið og það þarf engan að spyrja eða láta segja sér fyrir verkum þegar það setur lög. Það er afar mikilvægt að hvorki framkvæmdarvaldið né hagsmunaaðilar úti í bæ stjórni þinginu. Þar er minni hlutinn á villigötum eins og svo víða í sínum málflutningi.