154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hver þekkir ekki hugtökin stýrihópur, starfshópur og nefndastörf? Hver þekkir ekki hvítbók og grænbók? Hver þekkir ekki glærusýningar og teikningar á teikniborðinu um einhverja fallega sýn einhvers staðar í framtíðinni, einhvers staðar einhverja veruleikafirringu sem við, íslenskur almenningur og Íslendingar í dag, erum ekki að fá að njóta?

Hér er vaxandi fátækt og ég ætla bara að benda á það að hér finnst ekki ein einasta innviðastoð í íslensku samfélagi í dag sem stendur ekki á brauðfótum undir stjórn þessarar ríkisstjórnar nema hin styrka stoð græðgiskjafta bankanna sem nú eru að raka til sín sem aldrei fyrr peninga frá fyrirtækjum og heimilunum í landinu, og nú er einmitt snjóflóðið að falla á þá sem hafa verið með fasta og breytilega vexti. Hér hafa skuldir heimilanna vaxið um 40% á örstuttum tíma. Staðan hefur aldrei verið verri í heilbrigðismálum og fasteignamarkaðurinn er gjörsamlega í rúst. Samt er komið hér upp ítrekað og talað um hvað hér drjúpi smjör af hverju strái og allt sé frábært. Það eru ósannindi og það veit fólkið í landinu. Það vita þeir sem eru að glíma við það dagsdaglega að eiga mat á diskinn sinn, sem eru núna í ótta um það hvort þeir halda heimili sínu. Ég ætla ekki að tala um þær afleiðingar sem hamfarirnar hafa haft á Grindvíkinga og hvernig í rauninni ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í því að láta hlutina ganga eðlilega fyrir sig, fyrir fólk sem er gjörsamlega í sárum. Er það furða þó að við viljum losna við þessa ríkisstjórn? Þessi ríkisstjórn er ekkert annað en skaðræði fyrir íslenskt samfélag og ég skora á alla sem vettlingi geta valdið að mæta á þingpallana á morgun þegar ég mæli fyrir þessu vantrausti gagnvart ríkisstjórn Íslands.