154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. Frumvarpið er á þskj. 1365 og er 920. mál þingsins.

Frumvarpið heimilar, að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum, ráðstöfun á eftirstandandi eignarhluta ríkissjóðs í Íslandsbanka, en líkt og Alþingi er kunnugt liggur heimild í fjárlögum 2024 þegar fyrir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðstöfun eignarhlutarins eigi sér stað með markaðssettu útboði sem opið yrði öllum fjárfestum og að við slíkt útboð sé gætt að meginreglum laga um opinber fjármál um jafnræði, gagnsæi, hagkvæmni og hlutlægni. Með markaðssettu útboði, sem fellur í flokk almennra útboða, fylgir lögum samkvæmt skylda á seljanda til að almenningur hafi aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum um fyrirtækið sem útboðið beinist að. Því til viðbótar er í frumvarpinu sérstaklega kveðið á um skyldu til að tryggja gagnsæi í tengslum við ráðstöfunina, bæði í aðdraganda og í kjölfar hennar, m.a. með frumkvæðisbirtingu upplýsinga.

Markmiðum frumvarpsins á að vera unnt að ná með nokkuð einföldum hætti og án teljandi ágreinings. Með því að söluaðferðin og meginþættir í framkvæmd sölumeðferðarinnar eru skýrlega afmarkaðir í ákvæðum frumvarpsdraganna, sem ég vænti að verði rýnd rækilega í þinglegri meðferð frumvarpsins, er aðkoma Alþingis að framkvæmdinni tryggð.

Útboðið skiptist í tvær bækur, annars vegar tilboðsbók A sem hefur forgang og er eingöngu ætluð einstaklingum og hins vegar tilboðsbók B sem hugsuð er fyrir fagfjárfesta. Af ástæðum sem okkur öllum eru kunnar er sérstökum hæfisreglum stjórnsýslulaga vikið til hliðar í frumvarpinu. Í kjölfar síðasta útboðs á eignarhlutum í Íslandsbanka kom í ljós að útboð ríkisins á fjármálagerningum eru þannig vaxin að ómögulegt virðist að laga sérstakar hæfisreglur stjórnsýslulaga að þeim eins og þær reglur hafa verið túlkaðar. Ríkri upplýsingaskyldu frumvarpsins er ætlað að vega upp á móti því að sérstökum hæfisreglum verður ekki til að dreifa. Aukið gagnsæi getur þannig stuðlað að trausti á því að úr þessu verkefni verði leyst á hlutlægum grundvelli. Það er jafnframt von mín að sú skylda sem frumvarpið mælir fyrir um, að óháðum aðila sé falið að gera úttekt á því hvort meginreglum laganna hafi verið fylgt við beitingu þeirra, styrki tiltrú almennings á sölunni.

Verði frumvarpið samþykkt falla gildandi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum á brott. Þau lög taka til fleiri fjármálafyrirtækja og gera ráð fyrir að ráðherra hafi svigrúm við val á sölumeðferð. Sömuleiðis er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölu eignarhluta, samkvæmt lögum um stofnunina, falli brott. Þar með verða ekki til staðar lög um heimildir til sölu á eignarhlutum ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum og hlutverk Bankasýslunnar verður einskorðað við meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, fram til þess að hún verður lögð niður með lögum.

Vert er upplýsa hér að tímasetning á sölu eignarhluta ræðst af markaðsaðstæðum og að gert er ráð fyrir að allavega þurfi tvö söluferli til að ljúka við sölu allra eignarhluta ríkisins.

Það er öllum hér kunnugt að sala á eftirstandandi eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka er mikilvægur hluti af fjárlögum þessa árs og fjármálaáætlun næstu fimm ára, auk þess að vera í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, og því er það fagnaðarefni fyrir mig sem fjármála- og efnahagsráðherra að fá að mæla fyrir þessu frumvarpi í dag.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari.