154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að hafa bæði málin frá hæstv. ráðherra undir í þessum andsvörum enda hanga þau algjörlega saman, frumvarpið og stefnan. Ég vil að það komi fram að ég tel, og við í Samfylkingunni, að vindorkan eigi heima innan rammaáætlunar. Við tókum fyrsta skrefið í þá átt þegar við afgreiddum 3. áfangann vorið 2022 og settum tvo vindorkukosti þar inn, eða þeir voru afgreiddir með.

Það er margt hér sem þarf auðvitað að rýna og verður gert í meðförum þingnefndarinnar. Það er tvennt sem mig langar að fá svör við frá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hin sérstaka málsmeðferð, eins og henni er lýst hér í tillögu til þingsályktunar um stefnu og reyndar líka í frumvarpinu — það eru nefnd ákveðin skilyrði og séu þau uppfyllt geti ráðherrann ákveðið nýja málsmeðferð, þ.e. einhvers konar flýtimeðferð. Það væri gott að vita, af því að hér snýst, held ég, allt um ferlið og upplýsingaöflunina og skilyrðin, hvernig ráðherrann sér það fyrir sér að þetta fari fram. Það er kannski ekki einfalt að gera þetta svona og það gæti orðið til þess að einhverjum þætti flýtirinn of mikill eða skilyrði ekki uppfyllt af því að þetta verður á endanum alltaf matsatriði. Ég sé kostina í því að sveitarfélög hafi skýrt hlutverk en ég sé ekki alveg hvernig á að framkvæma þetta.