154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á tímabilinu 2010–2020 reisti Landsvirkjun þrjár virkjanir, Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun 2. Búðarhálsvirkjun var fjármögnuð og reist á vakt Samfylkingarinnar. Þeistareykjavirkjun var sérstakt áherslumál Samfylkingarinnar í ríkisstjórn og sett í nýtingarflokk rammaáætlunar í stjórnartíð Samfylkingarinnar. Stærstu orkuöflunarverkefnin sem nú eru á dagskrá, Hvammsvirkjun og Búrfellslundur, rötuðu í nýtingarflokk með stuðningi Samfylkingarinnar. Við greiddum atkvæði með því að þessi tilteknu verkefni færu í nýtingarflokk. Þessi verkefni þurfa að fá framgang. Nú eru virkjunarkostir t.d. komnir úr endurmati frá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Ætlar hæstv. ráðherra að leggja það fram á þessu þingi að þessir kostir, t.d. Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, fari í nýtingarflokk eins og verkefnisstjórn leggur til? Eða verður staðan áfram þannig, af því að ég nefndi þrjár virkjanir sem voru reistar að frumkvæði Samfylkingarinnar, að núll virkjunum verði bætt við? Núll gild virkjunarleyfi frá 2017, það er nú allur afrakstur Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með orkumálin allan þennan tíma en er svo í stjórnarandstöðu gegn sjálfum sér að skamma allt og alla fyrir að ekki hafi verið ráðist í nægilega orkuöflun.

Ætlar hæstv. ráðherra að koma með inn í þingið tillögur um að fleiri kostir fari í nýtingarflokk? Treystir hæstv. ráðherra sér til þess eða ætlar hann bara að koma hérna upp aftur og aftur og halda þessa sömu ræðu sína um að ekki hafi verið framleidd næg orka og Alþingi eigi að skammast sín þegar hann og hans flokkur hafa farið með þessi mál í öll þessi ár? Það liðu níu ár án þess að samþykkt væri ný rammaáætlun. Þar er ekki við Samfylkinguna að sakast, virðulegi forseti. — Og auðvitað væri líka gott að fá svör (Forseti hringir.) við því sem við spyrjum ráðherra um. Það er bara alltaf farið í einhvern pólitískan leik.