154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Fer ekki að koma sá tímapunktur að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því hversu barnalegt það er að hann skuli aldrei, nánast aldrei, geta komið í andsvör í þinginu öðruvísi en að ásaka þann sem er að spyrja hann út í hitt og þetta? Þú hefðir átt að gera þetta, ég er í vandræðum af því þú gerðir þetta ekki — þetta er yfirleitt viðkvæðið hjá hæstv. ráðherra og þá er algjörum útúrsnúningum alltaf beitt og farið frjálslega með staðreyndir. Hæstv. ráðherra lauk athugasemd sinni á því að fullyrða, í ljósi ræðu minnar, að Miðflokkurinn væri andsnúin grænni orkuöflun. Ég ítrekaði margoft í ræðu minni mikilvægi þess að við réðumst í ný verkefni til að afla grænnar orku og gerðum það hratt og vel með þeim leiðum sem við þekkjum og hafa reynst traustastar og bestar.

Það er ekki verið að leggja það til hér. Hæstv. ráðherra hefur ekki komið með frumvarp um að keyra af stað ákveðna nýtingarkosti eins og hann var raunar spurður um áðan og á enn eftir að svara, hæstv. ráðherra er ekki mikið fyrir að svara þegar hann er gagnrýndur. Það sem komið er með eru hugsanlegar vindmyllur sem hugsanlega geta talist framleiða græna orku en það er alls ekki öruggt. Eins og ég rakti hér í tiltölulega löngu máli þá er öll framleiðsla og uppsetning á vindmyllum til þess fallin að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum og eftir standa gríðarlega stórir spaðar til að mynda og mikið rask á náttúrunni þegar vindmyllurnar hætta að virka. Það er ekkert augljóslega grænn orkukostur.