154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins varðandi þessa endalausu eftirspurn sem er eftir góðri vöru eins og raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum kostum. Stundum eru hlutir bara uppseldir, ég held við þurfum líka að fara að ræða það. Stundum er bara ekki hægt að framleiða meiri raforku. Það eimir enn eftir af einhverri ofgnóttartilfinningu sem ég held að hafi einkennt Íslendingar lengi vel, að hér væri svo mikið af flæðandi vatni að við gætum bara virkjað endalaust og hér væri svo mikið af gufu að við gætum bara tappað af henni út í hið óendanlega. En það hefur runnið upp fyrir fólki á síðustu árum að hér er um tæmandi auðlindir að ræða og það má kannski einna helst þakka það vinnunni í kringum rammaáætlun. Þá var allt í einu komin þessi heildarsýn þar sem er bara búið að kortleggja landið og fólk áttaði sig á því að obbosí, það væri bara næstum búið að fullvirkja landið. Mér finnst dálítið smitast af þessari tilfinningu yfir í umræðu um vindorkuna, að tala um að það sé svo mikið af vindi á Íslandi að það sé bara ótæmandi orka. En einhvers staðar þurfa orkuverin að vera sett niður og það er tæmandi auðlind líka og bændur eru svo sannarlega farnir að finna fyrir því hvernig samkeppnin er þegar fjármagnsöflin koma og reyna að kaupa undir sig bújarðir til að nýta þær í annan ábatasamari rekstur.

En vegna þess að hv. þingmaður spyr um breytingartillöguna þá skulum við segja að ég geti verið opinn fyrir því að geyma breytingu á lögunum í heild varðandi stærðarmörkin en við þurfum að passa að það sé ekki haldið af stað með þessa nýju tegund af orkuvinnslu með röngum mörkum. Ég held að það að festa 10 MW í sessi í vindorkunni frá fyrsta skrefi væri ekki til heilla og í því ljósi held ég að væri kannski bara best að laga þetta hvort tveggja núna.