154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skemmtilegt svar. Það sem hæstv. ráðherra og ég erum sammála um er að við eigum að sjálfsögðu ekki að vera í öfugum orkuskiptum og að sjálfsögðu eigum við að vera að flytja okkur yfir í grænu orkuna með allt. En því miður tekur sumt lengri tíma en annað. Millilandaflug er t.d. eitthvað sem því miður er enn það langt fram í tímann að við getum ekki endilega fundið lausnir á því strax. En það sem ég var að benda á og hæstv. ráðherra heyrði kannski ekki nógu vel, og ég benti á að aðrir hafa verið að benda á þetta líka, er að nýtingin á því sem við erum með þarf að lagast.

Það er t.d. algerlega ótrúlegt að það skuli vera risastór virkjun á Austurlandi sem einungis dælir rafmagni á eina verksmiðju, að það séu engar tengingar þar við alla Austfirði sem þurfa þá að keyra allt á olíu; vegna þess að ekki er búið að búa til tengivirki til að nýta orkuna úr Kárahnjúkum betur. Þetta er það sem við þurfum að vera að vinna í, að nýta betur orkuna sem við erum þegar með. Það er það sem ég vil sjá hæstv. ráðherra vera að vinna í, ekki að vera að dreifa vindmyllum úti um allt land undir þeim formerkjum að það muni bjarga öllu.