154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[20:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Og ég ætla að gleðja hv. þingmann: Það er búið að ákveða að fara í stærstu uppbyggingu Íslandssögunnar í uppbyggingu flutningsmannvirkja. Við erum að tala um 88 milljarða áætlun, Blöndulínu 3, Holtavörðuheiðarlínu 1 og 3 og Suðurnesjalínu. Þetta eru stærstu áætlanir sem hafa verið samþykktar af Landsneti í Íslandssögunni. Við erum að gera nákvæmlega það sem hv. þingmaður nefndi en við þurfum að gera mjög margt og við þurfum að gera það mjög hratt. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að nýta orkuna betur og við verðum að styrkja flutningsmannvirki. Þetta er þjóðvegurinn og þetta er það sem hefur verið kallað eftir og ég hef róið að því öllum árum að láta þetta verða að veruleika. Ég er gríðarlega ánægður að sjá þessar áætlanir Landsnets sem eru ekki bara áætlanir; við höfum t.d. fundað með þeim sveitarfélögum og þeim sem þurfa að ganga frá skipulagi. Það er í mörg horn að líta og við vinnum ötullega að þessu.

Okkur vantar græna orku inn á þjóðveginn og svo þurfum við líka að styrkja tengivegina sem dreifikerfið er. Það er lykilatriði að við gerum allt þetta. Við erum búin að gera mjög mikið á undanförnum tveimur árum en við þurfum að gera miklu meira. Eins og hv. þingmaður veit, hann þarf ekki að gera mikið til að kynna sér það, þá þurfum við mjög mikla græna orku; auðvitað miklu minna en þær þjóðir sem við berum okkur saman við, en samt sem áður þurfum við mjög mikið. Eins og ég hef bent á, út frá staðreyndum, ekki skoðunum, höfum við gert mjög lítið í raforkumálum síðustu 15 árin og mjög lítið þegar kemur að heita vatninu og því er komið að skuldadögum. Auðvitað hefði verið betra að meira hefði verið gert áður en því er ekki til að dreifa. Við eigum ekki tímavél og því þurfum við að hlaupa hratt, einfalda kerfið eins og allar þjóðir sem við berum okkur saman við. Ég skora á hv. þingmann að styðja okkur í þessari vegferð því að það skiptir máli.