154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég reikna með að einhverjir starfsmenn ráðuneytisins séu að hlera umræður okkar hér og vil bara koma því á framfæri að ég hef mikinn áhuga á að heyra hvernig vinnu þessa sérstaka hóps um jöfnunarorku vindur fram. Ég held að það séu upplýsingar sem við þyrftum að fá inn í nefndina í þessu samhengi. Auðvitað er eðlilegt að skoða hvernig þessum málum er háttað í Evrópu en að sumu leyti getur verið erfitt að færa þá reynslu hingað. Þar erum við að tala um alveg ofboðslega stóran markað. Það er minna mál þar að henda einhverjum tugum megavatta til og frá til að jafna orku í vindorkuveri en í þeirri lokuðu einingu sem íslenska orkukerfið er. Ég tek undir það með ráðherranum að þetta er eitthvað sem er mikilvægt að skoða og nefndin þarf svo sannarlega að huga að þessu.

Seinna atriðið sem mig langaði að spyrja út í varðar tengingu vindorkuvera við restina af kerfinu. Í stjórnarsáttmálanum var talað um að stefna ætti að því að byggja upp vindorku á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum; þetta er náttúrlega alveg brjálæðislega óspennandi frasi en nauðsynlegur af því að það er ekki hægt að troða stórum orkuverum hvar sem er inn á kerfið. Þess vegna er það mjög praktískt og verkfræðilegt að hugsa og kjósa bara að staðsetja orkuverin þar sem auðveldast er að stinga þeim í samband til að koma orkunni áfram. Ég tek ekki eftir því að sérstaklega sé vikið að þessum þætti í stefnunni. Þú færð engar fyrirsagnir út á það að staðsetja hluti nærri tengivirkjum en þetta er samt mikilvægur hluti umræðunnar upp á heilbrigði kerfisins.