132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Höfundalög.

664. mál
[17:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar og spurningar sem hv. þm. Pétur Blöndal setur hér fram. Eins og fram kom erum við að koma til móts við það sem EES-svæðið og -rétturinn segir okkur. Um leið vil ég geta þess að það er um samræmingu að ræða.

Varðandi þau atriði og sérstaklega fyrra atriðið sem hv. þingmaður kemur inn á er hann í rauninni að beina til mín að breyta höfundaréttarlögum eins og þau eru í dag. Þetta er í algjöru samræmi við höfundaréttarlög okkar sem eru í gildi í dag, þ.e. að greitt er ákveðið höfundaréttargjald þegar listaverk ganga kaupum og sölum þannig að við erum ekki að breyta neinu hvað það varðar. Í rauninni erum við að breyta þeim upphæðum sem um er að ræða og eru í gildi.

Hv. þingmaður talar um skattlagningu á þeim munum sem koma á uppboð. Það má segja að uppboðið og uppboðsferlið er það opinbera ferli sem um er að ræða. Það er ljóst að það getur um það nú þegar í þeim lögum sem eru í gildi og þar af leiðandi eru ákveðin höfundaréttargjöld sem fylgja sem síðan fara einnig til uppboðshaldara. Því er ekki ætlunin að breyta með þessu frumvarpi en það væri hægt að ræða það á öðrum vettvangi.