136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég kem upp í sömu erindagerðum og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og spyr forseta og vil knýja hann um svör við því hvort við ætlum að fylgja þessari dagskrá. Mér finnst þetta í raun vera nokkuð sérkennilegt. Ég verð að segja alveg eins og er að við ætlum að ræða stjórnarskipunarlögin. Ég ætla ekki að fara efnislega í þau hér. Við vitum að ekkert samráð hefur verið haft við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að breytingum á stjórnarskipunarlögum, sem er alger nýlunda. Mér finnst þetta einkennandi fyrir ríkisstjórnina, við sjálfstæðismenn höfum boðað að við munum veita öllum efnahags- og atvinnumálum brautargengi. Hvað gerist? Það er einkennandi fyrir ríkisstjórnina að hún setur efnahags- og atvinnumál aftarlega á dagskrána. Ég spyr af hverju við breytum ekki dagskránni í þágu þjóðarinnar og atvinnulífsins, herra forseti, til þess að við getum fjölgað hér störfum og varið störf. Ég nefni (Forseti hringir.) dæmi um fjárfestingarsamninginn vegna Helguvíkur. Ég held að það sé mál sem brýnt er að komist á dagskrá en stjórnarskipunarlögin bíði.