136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá – tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

(MÁ: Númer átta.) Þar sem við ræðum hér um stjórnarskrána tel ég mikilvægt að við komum hingað upp og tjáum okkur um það hvernig aðferðafræðin er gagnvart breytingum á stjórnarskránni. Hér hafa menn í flimtingum, eins og hv. þm. Mörður Árnason, hvernig eigi að gera það, fara með það og tala í þinginu um stjórnarskrána. Stjórnarskráin er ekki eins og eitthvert plagg úti í bæ. Stjórnarskrána á að umgangast af virðingu. Við höfum breytt stjórnarskránni saman þrisvar sinnum síðan 1991 og við höfum náð að gera það í samkomulagi flokkanna. Í fyrsta sinn í sögunni er verið að breyta stjórnarskránni án samráðs allra flokka.

Það er líka rétt að vekja athygli á því að við ræðum hér um tillögur um stjórnlagaþing sem eru allt annars eðlis en tillögur Framsóknarflokksins. Ég spyr því Framsóknarflokkinn: Ætlar hann að styðja þetta frumvarp eða sitt eigið?

Það er líka merkilegt að upplifa það að þingflokksformaður Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) kemur hingað upp og styður frekar að við ræðum breytingar (Forseti hringir.) á stjórnarskránni en atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Það eru (Forseti hringir.) vond skilaboð til Suðurnesjamanna.