136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er langreyndur í því að halda uppi öflugri stjórnarandstöðu árum saman. (Gripið fram í: En ekki málþófi?) Málþófi á stundum og neita því ekki í tilteknum málum eins og vatnalagafrumvarpinu þar sem við að lokum náðum saman. Ég ætla bara að rifja upp út af orðum hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur. Hún kom í fyrsta lagi einu sinni upp í ræðustól til að skamma Alþingi fyrir vinnubrögðin. Hún fór í viðtal í sjónvarpi til að skamma Alþingi fyrir vinnubrögðin. Sjálf tekur hún þátt í því sem ég kalla leiksýningu þar sem hún kemur upp og spyr sína eigin flokksmenn spurninga, hefur þó tækifæri til að gera það þegar hún heldur ræðu hér á eftir, hafði tækifæri til að gera það fyrr í umræðunni. Þetta, hv. þingmaður, er leiksýning. Þetta er farsi en dálítið grátbroslegur og það er grátbroslegt að það skuli vera þingmaður sem skammaði þingið fyrir nákvæmlega þessi vinnubrögð sem fellur í þessa gryfju, sem enginn þingmaður í þessum sal hefur fallið í áður. Það finnst mér vera dapurlegt.