136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:12]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað hjálpar þetta einhverjum, láglaunafólki með 150–200 þús. í mánaðarlaun, ef það hefur vinnu, og fólki á atvinnuleysisbótum, það hjálpar þó að það séu bara 60–70 þús. á mánuði sem fólk fær út úr svona séreignarsparnaði. Það gefur augaleið. Það munar um hverja krónu þegar fólk er orðið atvinnulaust og í dag eru yfir 16.000 manns atvinnulausir á Íslandi. Auðvitað skiptir þetta einhverju máli. Hugsanlega mætti þetta vera stærra og meira, það er alveg til í dæminu. En um þetta var sátt og ég styð þá sátt.

En af því að menn eru að tala hér um atvinnumál og það sé aðalatriðið að taka á atvinnumálum og endurreisn atvinnulífs á Íslandi, þá er alveg sjálfsagt að við tölum um sjávarútveg þar sem við höfum möguleika á að auka tekjur í þjóðfélaginu meira en í öðru. Við þurfum ekki að kaupa skip til að veiða 90.000 tonn af þorski í viðbót. Við þurfum ekki að byggja fiskverkanir eða fiskvinnsluhús. Þetta er til staðar. Við þurfum bara að ákveða að gera þetta. Þá munum við ná auknum gjaldeyristekjum og skapa fleiri störf á Íslandi og stíga einhver skref út úr þeirri kreppu sem við erum í.

Það er sorglegt þegar menn eru að tala um þetta séreignarsparnaðarfrumvarp og hvernig eigi að greiða út úr því kerfi, 63 þús. kr. á mánuði er auðvitað ekki stór upphæð en hún getur samt dugað víða, annaðhvort fyrir leigu eða mat að hluta fyrir fólk. Það búa margir við það á Íslandi að hafa ekki nema 20 þús. kr. á mánuði til (Forseti hringir.) matarkaupa.