139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[14:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Endalok SpKef höfðu mikil áhrif á allt sparisjóðakerfið sem minnkaði um helming þegar sparisjóðurinn sameinaðist Landsbankanum. Að mati Bankasýslunnar sem fer með eignarhald ríkisins í sparisjóðunum eru minnstu sparisjóðirnir af þeim 10 sem eftir eru margir hverjir of litlir og því stefnir greinilega í sameiningu á þeim vettvangi, jafnvel í tvo og sumir hafa sagt einn. Það er hins vegar Seðlabankinn sem hefur haft með höndum fjárhagslega endurskipulagningu þeirra sparisjóða sem voru að hluta endurfjármagnaðir með kröfum sem breytt var í stofnfé og við sjáum nú vonandi fyrir endann á þeirri endurskipulagningu.

Í neyðarlögunum var því lofað að innstæður í sparisjóðum væru tryggðar ekki síður en í öðrum fjármálastofnunum og einnig að sparisjóðunum yrði komið til aðstoðar ekki síður en bönkunum. Við það eru menn að standa. Í neyðarlögunum voru ætlaðir 20 milljarðar kr. til þessa verkefnis en þeir fimm sparisjóðir sem þegar hafa fengið aðstoð samkvæmt þeim lögum hafa aðeins þurft lítinn hluta af þeirri fjárhæð. Hitt er svo annað mál að ef ríkið hefði átt að yfirtaka allar skuldbindingar sjóðanna sem og að lagfæra eiginfjárhlutfall þeirra sem nú er gerð miklu ríkari krafa til hefði reikningurinn verið nær 50 eða jafnvel 60 milljörðum kr. Aðeins SpKef hefði þurft 20–30 milljarða kr. sem kunnugt er þannig að einnig hér, ekki bara í bankakerfinu, kemur ríkið betur út úr þessari erfiðu endurskipulagningu á fjármálakerfinu en á horfðist.

Það er ríkur vilji til þess á Alþingi og hjá stjórnvöldum að viðhalda sparisjóðakerfinu í landinu og þar með fjölbreytni í fjármálaþjónustunni. Sparisjóðirnir hafa í áranna rás gegnt mikilvægu hlutverki í byggðum landsins en ef það á að takast að byggja upp á ný þurfa menn að horfa til þess að byggja upp sparisjóði til að þjóna fólki en ekki fjármagni, sparisjóði sem eru stoð og stytta byggðarlaga og menningarlífs en ekki fjármagnseigenda.