140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Árið 2003 var tekin upp fjármálaregla hér á landi um að raunvöxtur samneyslu yrði ekki meiri en 2% á ári. Þessari einföldu reglu var ekki fylgt eftir. Ástæðurnar eru bæði pólitískar og verðbólga sem skapaði óvissu um raunvöxtinn. Á síðasta ári samþykkti Alþingi að setja sveitarfélögum fjármálareglur um jafnvægi í rekstri yfir hver þrjú ár og að heildarskuldir mættu ekki fara yfir 150% af heildartekjum. Nú þegar eru vísbendingar um að verið sé að fara í kringum skuldaþaksregluna með til dæmis skapandi bókhaldskaupum sveitarfélaga á landsvæði norðan heiða. Síðan má nefna ríkisábyrgð á fjármögnun Vaðlaheiðarganga sem dæmi um skapandi hugsun við að sniðganga fjármálareglur. Rannsóknir sýna að fjármálaregla sem kveður á um nafnvöxt útgjalda er best til þess fallin til að tryggja sveiflujöfnun.

Frú forseti. Fjármálareglur takmarka hallarekstur og skuldsetningu ríkissjóðs og þær eru því vinsælar á krepputímum. Slíkar reglur gera kreppuna dýpri ef þær eru ekki hannaðar til að vinna gegn samdrætti. Ef koma á í veg fyrir að ríkisfjármálin og peningastefna magni upp sveiflurnar í hagkerfinu er ekki nóg að innleiða fjármálareglur og verðbólgumarkmið. Fylgjast þarf með og setja þar reglur um

1. skuldsetningu ríkissjóðs,

2. skuldsetningu einkageirans,

3. viðskiptajöfnuð,

4. útlánavöxt bankakerfisins.