140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég sótti nefndarfundi þá þrjá daga sem nefndin hafði þetta mál til umfjöllunar og var þá að leysa hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur af. Mér blöskruðu vinnubrögðin. Ég átti von á því, eins og ég rakti í ræðu minni, að í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem virtist vera við þetta mál og athugasemda stjórnarandstöðu og fleiri en eins stjórnarliða, sem komu hingað upp og gagnrýndu meginþætti málsins, yrði málið tekið fyrir og skoðað frá ýmsum hliðum og í það minnsta sent í eðlilega, þinglega meðferð, til umsagnar og fleira því um líkt. Ég furða mig í rauninni á þeim vinnubrögðum sem þarna eru.

Það segir manni kannski, svo ég komi inn á næsta svar, að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, forustumönnum ríkisstjórnarinnar, finnst sjálfsagt að mál komi seint og illa til þingsins á síðustu dögum þess. Hliðarherbergi voru full af þingmálum dögunum áður en frestur rann út til að skila þeim inn. Fram að þeim tíma höfðu til að mynda engin mál verið í atvinnuveganefnd. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra hingað upp og segir að eðlilegt sé að afgreiða mál á færibandi. Það vekur þó mesta athygli að þeir sem gagnrýndu þessi vinnubrögð á árum áður skuli nú standa við færibandið og snúa því eins hratt og þeir geta til að koma þessum málum í gegn án þess að nokkur geti litið á þau.

Hv. þingmaður minntist á skeldýramálið sem er gott dæmi um þetta. Vinnubrögðunum verðum við að breyta. Þau breytast ekki nema menn segi: Hingað og ekki lengra. Það er ekki hægt að leyfa forsætisráðherra og mörgum hverjum í hæstv. ríkisstjórn, sem hafa setið á þingi svo áratugum skiptir, (Forseti hringir.) að keyra allt áfram á hnefanum einum saman án þess (Forseti hringir.) að eðlileg, þingleg vinnubrögð séu höfð í heiðri.