140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að vinna ekki aðeins við stjórnmál heldur vera líka miklir áhugamenn um stjórnmál og höfum stundum velt fyrir okkur málum hér út frá stjórnmálafræðinni, ef svo má segja, eða vangaveltum um hvað sé raunverulega að gerast. Þar hefur einmitt þessi ríkisstjórn verið óþrjótandi uppspretta álitamála. Þetta er svo sannarlega ein af þeim ráðgátum sem er áhugavert að heyra hv. þingmann velta fyrir sér.

Ég er alveg sammála mati hv. þingmanns á því að þetta sé hluti af hrossakaupum innan ríkisstjórnarinnar, á milli stjórnarflokkanna og hugsanlega að einhverju leyti innan þeirra. En hver telur hv. þingmaður að sé ástæðan fyrir því að hluti ríkisstjórnarinnar telur sig þurfa að fara í slík hrossakaup til að ná þessari niðurstöðu?

Maður sér hvergi, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á í ræðu sinni, rökin fyrir því að gera þetta svona. Þvert á móti gengur þetta í berhögg við það sem ríkisstjórnin hafði boðað áður og er 180 gráðu viðsnúningur frá yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvað telur hv. þingmaður að hafi gerst í millitíðinni sem varð til þess að að minnsta kosti hluti ríkisstjórnarinnar fór að beita sér fyrir þessari niðurstöðu?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er ekki bara hinn almenni áhugi á stjórnmálunum sem ég nefndi hér í upphafi, heldur væri líka mjög gagnlegt fyrir okkur þingmenn að gera okkur grein fyrir því hver er hinn raunverulegi drifkraftur í þessu máli, hvers vegna þessi kerfisbreyting, sem ljóst er að mundi aldrei gilda lengur en í hálft ár, er keyrð áfram hér af slíkri hörku að allt annað er sett í uppnám eða sett í bið.