141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Skiptir máli hvaðan gott kemur? Mér var kennt það á sínum tíma að góð hugmynd ætti ekki að gjalda þess hvaðan hún kæmi, sérstaklega ekki ef hugmyndin gæti hjálpað fólki til skemmri og lengri tíma, ég tala nú ekki um samfélaginu sem slíku. Núna snertir þessi hugmynd það að við getum fengið að segja álit okkar á ríkisstjórninni. Ég hef verið spurð að því á síðustu dögum: Af hverju að koma ríkisstjórninni frá þegar stutt er til kosninga? Þetta er eðlileg spurning og fyrir okkur sem hefur verið falinn einn mikilvægasti lykillinn í hverju lýðræðissamfélagi, þ.e. að greiða atkvæði á elstu löggjafarsamkomu í heimi, er bæði rétt og hollt að staldra aðeins við.

Af hverju já við vantrausti?

Ég verð ekki í framboði fyrir næstu kosningar en ég fer víða og ég nýt þess gjarnan. Það dásamlega við starfið okkar, eins og alltaf, er hversu marga maður hittir. Maður hittir alls konar fólk í alls konar störfum með alls konar skoðanir og alls konar viðhorf, en skilaboðin um ríkisstjórnina eru ekki alls konar. Þau eru mjög einsleit og skýr, þau að ríkisstjórnin verði að fara, helst strax en að minnsta kosti eftir kosningar. Í dag er einmitt tækifærið fyrir okkur á þingi að segja álit okkar á þessari vinstri ríkisstjórn. Við skulum átta okkur á því að tíminn er dýrmætur. Sumir segja að hann sé það dýrmætasta af öllu því að hann kemur aldrei aftur og það verðum við líka að hafa í huga við atkvæðagreiðsluna á eftir.

Það er mikilvægt fyrir hvert okkar sem er þeirrar skoðunar að þessi erindislausa ríkisstjórn sé ómöguleg og eigi að fara að nota þau tækifæri sem gefast til að koma ríkisstjórninni frá hið fyrsta. Hver dagur er dýrmætur, ekki síst ef það verður til þess að minnka líkurnar á því, og það skiptir máli, að þessi ríkisstjórn lifi af kosningarnar sjálfar í apríl. Reyndar veit ég ekki hvað aðrir flokkar ætla að gera en ég ætla að leyfa mér að vona og fullyrða að við sjálfstæðismenn munum ekki verja þessa tvo flokka, hvorki fyrir né eftir kosningar, með nokkru móti því að við verðum að hefja uppbyggingartímabil að loknum kosningum. Þess vegna þarf að nýta þetta tækifæri og eyða öllum möguleikum á því að núverandi ríkisstjórn verði áfram. Hvert okkar á að gera það út frá því sjónarhorni að það er þjóðhagslega hagkvæmt, mikilvægt og brýnt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að forða þjóðinni frá þessari stjórn sem í einhverju ímyndarbrjálæði vildi á sínum tíma kalla sig norræna velferðarstjórn. Eftir á að hyggja er það ein skrýtnasta nafngiftin og líklega ein mesta móðgun sem við höfum sent vinaþjóðum okkar á síðari árum.

Og svo kenndi þessi stjórn sig við jafnrétti. Munið, það eru þrír dagar síðan baráttudagur kvenna var og þessi stjórn kenndi sig við jafnrétti. Innihaldslausar klisjur á klisjur ofan. Orð eru nefnilega stundum bara orð hjá sumum, orð á blaði, fín í ræður en aldrei nógu góð í efndir.

Rifjum aðeins upp söguna. Í fyrsta lagi var kynjuð hagstjórn, mjög merkileg tilraun í rauninni en samt var hún kynnt til sögunnar í sama fjárlagafrumvarpi og mesti niðurskurðurinn beindist að konum og kvennastörfum, ekki síst úti á landi. Það var kynjaða hagstjórnin hjá ríkisstjórninni.

Í öðru lagi var fæðingarorlofið, atlaga eftir atlögu að fæðingarorlofinu sem er eitt mesta jafnréttistækið á síðari tímum. Í því efni höfum við sérstaklega verið fyrirmynd annarra þjóða og ríkisstjórnin hjó í sinni forgangsröðun beint í fæðingarorlofið aftur og aftur.

Síðan er í þriðja lagi launamisrétti kynjanna. Átti það ekki að minnka strax við það eitt að þessi ríkisstjórn kallaði sig jafnréttisstjórn? Ó, nei, launamisrétti kynjanna jókst, ekki bara á einkamarkaði heldur líka hjá hinu opinbera, og það undir hinni hreinu og fallegu jafnréttisstjórn til vinstri. Ég spyr: Hvar eru allir álitsgjafarnir sem vilja tjá sig um þetta mál? Ef menn ætla að segja núna að þetta hafi verið svo svakalega vel gert á fjórum árum vil ég sérstaklega benda á Reykjanesbæ þar sem atvinnuleysið hefur verið 9% en samt hefur Reykjanesbæ tekist, undir forustu sjálfstæðismanna, að útrýma kynbundnum launamun. Það er hægt og þeir sem búa í Reykjanesbæ á Suðurnesjum taka þá hluti alvarlega að orðum verði að fylgja efndir.

Síðan er í fjórða lagi ekki hægt að láta hjá líða að nefna jafnréttisbrotið hjá þessari ríkisstjórn. Ég held að það sé met hversu margir ráðherrar hafi brotið jafnréttislögin. Það er met að við höfum núna fyrsta forsætisráðherra landsins sem hefur brotið jafnréttislög. Það er sama manneskja og barðist sérstaklega fyrir því að álit kærunefndar jafnréttismála yrðu bindandi — bara ekki fyrir hana.

Svona er þessi ríkisstjórn og þess vegna eigum við að nota öll okkar tækifæri til að segja álit okkar á henni.

Ég minntist á Suðurnesin þar sem menn kalla ekki allt ömmu sína. Þótt ég sé stolt af því að geta kallað einmitt ömmu mína og afa, langömmu og langafa, inn á þetta svæði er ríkisstjórnin ekki á sama máli. Þessi norræna ríkisstjórn efndi til mikils glansfundar, þið munið, þar sem hún greindi meðal annars frá uppbyggingu herminjasafns sem ætti að skapa ósköpin öll af störfum, hugsanlega eitt til tvö stöðugildi, og gera þannig alveg fullt, alveg glás fyrir Suðurnesjamenn þar sem atvinnuleysið er 9%. Á þá sjálfa má ekki hlusta, líf þeirra má bara vera svona, hugsanlega út af nálægð við höfuðborgina, og svo þrammar atvinnuvegaráðherra hér inn með frumvarp á síðustu metrum þingsins sem felur í sér ívilnanir fyrir atvinnustarfsemi á Norðurlandi, í hans kjördæmi. Fínasta mál, en hann segir síðan: Þetta mál er bara einnota.

Það er bara einnota og önnur svæði mega ekki líta á þetta mál sem fyrirmynd, allra síst Suðurnesin. Það er ekki bara verið að trampa og troða á Suðurnesjunum heldur er verið að snúa hnífnum í sárinu og stútfylla það af salti. Og ég segi: Verði þeim að góðu, oddvitum stjórnarflokkanna í Suðurkjördæmi, ég ætla ekki að hugsa um hina sem á eftir koma, þeir munu hvorki komast lönd né strönd. Verði þeim að góðu að fara með svona veganesti inn í kosningabaráttuna.

Eigum við að tala um sjávarútveginn þar sem reynt var að ná sátt? Það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að fara gegn sáttinni. Sjávarútvegurinn skilaði á síðasta ári 42% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar en ríkisstjórnin krukkar ekki bara örlítið í kerfið heldur stefnir kerfisbundið að því að skemmdarverkastarfsemi verði stunduð fyrir allt þjóðarbúið. Hún dregur úr arðsemi sjávarútvegsins, og hvað gerir það? Það veikir okkur í því verkefni að styrkja aðrar grunnstoðir í samfélaginu, velferðarkerfið, menntakerfið, lögregluna. Það gerir þessi árás á sjávarútveginn. Einn af okkar ágætustu varaþingmönnum orðaði það svo ótrúlega vel: Sjávarútvegurinn er örugglega ekki mesta vandamál þessarar ríkisstjórnar, en þessi ríkisstjórn er hins vegar mesta vandamál sjávarútvegsins.

Þess vegna segi ég, ágætu þingmenn: Við þurfum að nota hvert tækifæri sem gefst til að segja álit okkar á þessari ríkisstjórn.