141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu til þingsályktunar sem byggir á greinargerð. Hér hafa menn reynt að hlaupa frá þeirri greinargerð og reynt að halda því fram að þeir séu að greiða atkvæði um eitthvað allt annað. Verið er að greiða atkvæði um vantraust á ríkisstjórnina vegna meintra vanefnda í stjórnarskrármálinu.

Frú forseti. Það er staðreynd málsins og menn geta ekki hlaupið frá því sem þeir eru að greiða atkvæði um þótt þeir reyni að halda einhverju öðru fram. Ég er þess vegna mjög undrandi á því að hv. þingmaður skuli leggja tillöguna fram með þessum hætti og leita þannig fulltingis þeirra sem hafa barist gegn stjórnarskrármálinu og breytingum á stjórnarskrármálinu af öllu afli allt þetta kjörtímabil. Nú leitar hv. þingmaður fulltingis þeirra til að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og telur meira segja að málinu sé betur borgið með því að leggja til að þeir komi inn í ríkisstjórn að þessari fallinni. Öðruvísi mér áður brá.

Frú forseti. Ég er einlægur (Forseti hringir.) stuðningsmaður þess að við vinnum að heildarendurskoðun á nýrri stjórnarskrá. Ég er einlægur stuðningsmaður þess að sett verði inn sterkt auðlindaákvæði. Ég er einlægur stuðningsmaður þess að það komi inn (Forseti hringir.) ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og o.s.frv. Þess vegna segi ég nei við tillögunni.