143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn enda er þetta mikilvæg umræða. Hv. þm. Pétur Blöndal ræðir að það sé fráleitt að hafa bæturnar innan skattkerfisins. Eðlilegt væri að við hefðum þetta í sérstöku kerfi þar sem öll börn nytu sömu greiðslna frá hinu opinbera, rétt eins og frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa gert, til að tryggja sem besta afkomu barnafjölskyldna. Kannski er þingmaðurinn að tala fyrir því, þá fagna ég því en ég óttast að svo sé ekki.

Ég sakna þess að hafa ekki fengið skýrari svör frá hæstv. fjármálaráðherra um að hann ætli að tryggja að þeir fjármunir sem ætlaðir eru í barnabætur renni þangað. Það er vel hægt að breyta reglum eftir á þegar þær eru ívilnandi og ég tel því mikilvægt að ráðherra fari yfir það með skattyfirvöldum (Forseti hringir.) hvort ástæða sé til þess til að nýta þær fjárheimildir sem þó voru ætlaðar til barnafjölskyldna.